Espergærde. Verðlaunadagur.

Engin dagbók skrifuð í gær og það er auðvitað ekki nógu gott, Snæi minn. En gærdagurinn fór fram á tennisvellinum í Espergærde. Ekki að það sé einhver afsökun. Ég hafði nefnilega skráð mig í félagsmeistaramótið í mixed-double sem fram fór í gær. Þetta er fyrsta skiptið sem ég tek þátt í slíku móti og taugarnar voru þandar.

Ég hef átt við þann vanda að etja að ég verð svo taugastrekktur þegar ég tek þátt í alvöru keppni. Til dæmis þegar ég keppti með fótboltaliðinu hérna í Espergærde, og það gerði ég örugglega í sex eða sjö ár, var ég hundtaugastrekktur fyrir hvern leik. Svo mikil var ólgan inni í mér að strax um við morgunverðarborðið á leikdegi skynjaði Sus óróleikann í mér þótt hún hefði ekki hugmynd um að ég ætti að spila kappleik. „Hva, áttu að keppa í dag?“

En í gær ráfaði ég um tennissvæðið á meðan ég beið eftir að leikirnir mínir hæfust og milli leikja. Ég get ekki einbeitt mér að tala við fólk því ég er svona nervös. En hvað um það dagurinn endaði vel: Ég varð klúbbmeistari í mixed double! Við töpuðum ekki einum leik og unnum úrslitaleikinn öruggt.

Og verðlaunin fyrir sigurinn var eitt rör af tennisboltum. Yo!

ps. Nú er ég taugastrekktur yfir öðru. Ein taugaveiklunin tekur við af annarri. Það eru afköstin sem vekja áhyggjur mínar. Mig dreymdi í nótt að ég hefði fundið nýtt kerfi til að auka afköstin. En draumurinn var hálfgerð martröð, satt að segja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.