Espergærde. Sumarkvöld á Snaps.

„Maður skal vera mjög varkár og sérstaklega með að vera heiðarlegur í því sem maður segir og skrifar,“ sagði maður sem ég hlustaði á í gærkvöldi. Ég hafði farið á Louisiana til að vera viðstaddur samtal blaðamanns við fyrrum forsætisráðherra Danmerkur sem ætlaði að tala um nýja bók sem hann hafði skrifað og útkom í fyrradag. Meira um heiðarleikann síðar.

Það var líka í gær sem ég las blaðaviðtal sem vakti athygli mína. Bent Heller er rithöfundur af eldri kynslóðinni hér í Danmörku og hann fann gamlar dagbækur uppi á háalofti heima í húsi foreldra sinna og hefur notað þær sem efnivið í sjálfsævisögu. Hann hefur alla tíð haldið dagbók og þær eru algjörlega prívat. Hann lætur það vera sitt alfyrsta verk á morgnana að skrifa dagbókarfærslu dagsins og það bregst aldrei. (Nú hef ég brugðist tvo daga í röð sem ég er ekki stoltur af. Ég hef ekki haft tíma eða orku til að skrifa Kaktusfærslur, ég er svo upptekinn af fermingarveisluundirbúningi fyrir Davíð. Þetta var afsökun.) Í huga Bent Heller er það óhugsandi að aðrir en hann sjálfur hafi aðgang að dagbókunum. Hann telur að það mundi eyðileggja heiðarleikann í skrifunum ef aðrir læsu færslurnar en það er einmitt þessi prívataðgangur sem hann telur einu réttu leiðina til að skrifa dagbækur og þannig kynnast sjálfum sér betur.

Þetta vakti mig auðvitað til umhugsunar – og ekki í fyrsta sinn – um hvort það væri betra fyrir mig að halda dagbókinni, Kaktusnum, aðeins fyrir mig og leyfa ekki öðrum að lesa. Það er auðvitað satt og rétt hjá Bent Heller að opinber dagbókarskrifari getur ekki leyft sér það sama og sá sem skrifar eingöngu fyrir sjálfan sig. Maður hefur tilhneigingu til að fegra sjálfan sig fyrir umheiminum, teikna fegraða mynd af raunveruleikanum, passa sig að styggja ekki fólk og svo framvegis. Í hálfeinangrun minni hér í útlöndum hef ég þörf fyrir að láta vita af mér, segja frá því sem á daga mína drífur því ég veit að margir vinir mínir lesa það sem ég skrifa og ég hef þörf fyrir að halda sjálfum mér á lífi í þeirra huga og ekki þykir mér verra að fá viðbrögð frá þeim. Þess vegna held ég dagbókinni opinni. En nú kemur aftur að þessu með heiðarleikann.

Ég sat kvöld eitt í sumar með félögum mínum til margra ára á veitingahúsinu Snaps. Þarna sátum við átta saman. Af einhverjum ástæðum barst talið að dagbókarskrifum mínum – sem sumir þekktu – og að færslu þar sem mér hafði víst tekist að hneyksla ákveðinn hóp fólks með skrifunum, svo mjög að menn sáu ástæðu til að ræða hugsanir mínar á facebook. Þetta fór að nokkru fram hjá mér þar sem ég skoða ekki facebook en ég heyrði af þessu fári. Ég ætla ekki að endurtaka orð mín úr þessari gömlu færslu hér því ég sé ekki ástæðu til að byrja þá umræðu upp á nýtt. En ég meinti fullkomlega það sem ég sagði, og lét það flakka þótt ég vissi að orð mín ættu eftir að falla í grýtta jörð hjá sumum. Allir vita að efnið er á jarðsprengjusvæði og karlmenn á mínum aldri veigra sér við að fá sér göngutúr þangað inn. Þótt félagar mínir létu flestir í ljós að þeir væru mér að mestu sammála kom allt í einu þetta óvænta innskot frá einum þeirra: „Æ, Snæi, hefurðu engan til að lesa þessar færslur yfir fyrir þig?“

Þótt ég svaraði þessu ekki þarna um kvöldið finn ég enn hvað mér sárnaði þessi orð félaga míns. Í þeim fólst að ég væri dómgreindarlaus á það sem ég sendi frá mér hér á Kaktus. Það svíður enn undan orðum hans. En auðvitað er það satt að maður skal vera varkár í skrifum sínum og sérstaklega með að vera heiðarlegur.

ps. Í morgun á göngu minni fann ég fyrsta sinn fyrir haustkulinu í ár. Haustið hefur laumað sér inn í sumarið með sinn svala andardrátt. Það fann ég þegar ég steig út í morguninn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.