Espergærde. Óaðfinnanlegt.

Ég borða hafragrautinn minn óaðfinnanlega, hugsaði ég við morgunverðarborðið í morgun. Hugsunin fæddist þegar ég setti fyrstu skeiðina upp í munninn á mér – hæfilegt magn af graut á skeiðinni – og kyngi grautnum hljóðlaust. Ég beið í nokkrar sekúndur áður en ég endurtók sömu athöfn og fékk mér næsta bita. Það er ómögulegt að finna að því hvernig ég borða hafragraut, hugsaði ég aftur. Ég leit í kringum mig á borðnauta mína. Enginn þeirra virtist hafa tekið eftir að ég hafði bæði sett hafragraut upp í mig og kyngt. Ég borða hægt, ég borða hljóðlaust og ég klára grautinn af diskinum – diskurinn er svo hreinn að varla þarf að þvo hann. En allt gerist þetta á óaðfinnanlegan hátt.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég fékk aðfinnslur um helgina – þó ekki yfir því hvernig ég borða. Ég fékk áminningu vegna minnar ægilegu afkastafíknar. Ég hafði minnst á það við félaga minn að ég ætlaði að skila handriti að bók í byrjun mars á næsta ári en ég minntist á það í sömu andrá að ég ætti í vandræðum. Ég hefði ekki fundið taktinn aftur eftir sumarfrí og ég væri harla óánægður með afköstin þess vegna hefði ég leitað skjóls í þýðingarvinnu. Það setti auðvitað á mig aukaþrýsting ef ég ætlaði að ná að klára að skrifa fyrir marsmánuð. Ég sagði honum að ég væri frekar vonsvikinn.

Bréfið sem mér barst um hæl var nokkuð harðort. „Veistu hvað Donna Tartt er lengi að skrifa eina bók? Hún tekur sér 10 ár til þess. Slappaðu af!“ Ekki veit ég hvort þetta hjálpi mér við að sætta mig við minni afköst, það efa ég. En ef ég skrifaði bara eina jafngóða bók og Donna Tartt hefur skrifað mundi ég sætta mig við að senda frá mér eina bók á 10 ára fresti. En ég velti fyrir mér hvernig á því stendur að hún taki sér svona langan tíma í að skrifa eina bók. Hvað gerir það að verkum að hún er svona lengi?

ps.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.