Espergærde. Plútó, Che Guevara, Per Petterson og Luton FC

Þegar Per Petterson, norski rithöfundurinn, var unglingur hengdi hann plakat af August Strindberg upp á vegg í herberginu sínu. Svo mjög dáði hann sænska skáldið. Fyrir á sama vegg á heimili hans í bænum Veivet, rétt fyrir utan Osló, voru tvö önnur veggspjöld; eitt af byltingarleiðtoganum með fínu andlitsdrættina, Che Guevara og hitt af hinum ekta kvennabósa, mesta töffara allra fótboltamanna, George Best, liðsmanni Manchester United. George Best spilaði alltaf með númerið 7 á bakinu; sjö eins og vikudagarnir eru margir, eins og hann sagði alltaf.

Ég fór að hugsa um þetta með veggmyndirnar því ég man ekki til þess að neinn af vinum mínum í æsku hefði myndir af skáldum á vegg sínum. Ekki einu sinni Palli sem var frægur um allt hverfið fyrir að hafa lesið Ian Flemming og ævintýri James Bond á ensku. Sjálfur hengdi ég eitt plakat upp á herbergisvegginn minn og það hékk þar í mörg ár. Það var liðsmynd af fótboltafélaginu Luton Town: Luton Town FC leiktímabilið 1970-1971 stóð neðst á plakatinu.

Luton Town var hundlélegt fótboltalið og spilaði í þriðju eða fjórðu deild. Ég hafði séð liðið spila bikarleik í sjónvarpinu og mér fannst einn leikmaður liðsins, hárprúður náungi, sérstaklega áhugaverður og varð til þess að ég lagði allt í sölurnar til að útvega mér plakat af fótboltafélaginu. Í sjónvarpsleiknum skoraði hárprúði náunginn tvö mörk þótt hann væri aftasti maður. Í bæði skiptin hljóp hann strax inn í markið til að sækja boltann og kyssa hann. Mér fannst þetta eitthvað svo smart að ég ákvað strax að taka upp sama sið. Næsta dag eftir sjónvarpsleikinn var auðvitað eins og alltaf fótbolti á skólalóðinni og þegar ég skoraði hljóp ég inn í markið, sótti boltann, kyssti hann og lagði hann svo á miðjupunktinn. Þetta vakti auðvitað furðu félag minna sem stóðu agndofa yfir þessu nýja háttalagi.
„Snæi, hva … afhverju gerirðu þetta þegar þú skorar?“
Ég var svo hátt uppi yfir þessu flotta tiltæki og athyglinni sem ég fékk að ég hrópað í gleði minni: „Áfram, Luton!“ Þetta gerði hegðun mína enn dularfyllri. Enginn af félögum mínum hafði hugmynd um hvað Luton var. Vakti þetta svo mikla kátínu og það sem eftir var sumars fögnuðu félagar mínir hverju marki á skólalóðinni með: „Áfram Plútó!“ sem var hundurinn í Andrés-blöðunum. Ég leiðrétti þetta aldrei en ég hélt áfram mínum nýja sið að sækja boltann eftir hvert mark og kyssa hann.

ps. Einhver sagði mér að þetta hefði brasilíska fótboltastjarnan Pelé líka gert.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.