Espergærde. Fylgdarfuglinn

Ég hef oft tekið eftir löngum og mjóum fugli með langt nef fljúga í humátt á eftir mér þegar ég geng út í sveitina hér fyrir utan bæinn. Gönguleiðin sem ég vel stundum liggur fjarri mannabyggðum eftir mjóum stígum milli akra og engja. Ég er satt að segja einn í heiminum á göngu minni. Og það er sami fuglinn sem flýgur á eftir mér með hægum og fáum vængjatökum; hann fylgir mér á göngu minni. Hvað þessi fugl heitir veit ég ekki en hann hefur sérstakt eintóna kvak sem er bæði eymdarlegt og sorglegt. Þetta er tónn einsemdarinnar, hugsaði ég í morgun þegar ég ákvað að hlaupa (í stað þess að ganga) eftir þessum fáförnu stígum og mjói fuglinn fylgdi mér kvakandi.

Eins og venjulega hætti fuglinn að veita mér eftirför – hvarf bara allt í einu inn í himininn – þegar ég nálgaðist mannabyggðir. Enda fór ég að mæta fólki á göngu með hunda sína og þessi langi fugl kærir sig ekki um annað fólk. „God morgen,“ segi ég þegar ég mæti hundaeigendunum, þessu ókunnuga fólki sem verður á vegi mínum, „god morgen,“ endurtek ég nokkrum sinnu á ferð minni eftir göngustígunum með mínu eintóna kvaki, mínum einsemdartóni.

Í gær skrifaði ég ekki staf. Ég þýddi ekki eitt orð heldur sat og las frá morgni til kvölds enda langt síðan ég hef haft tíma og ró til að lesa. Ég er kominn langt á eftir áætlun með lestur, ég er kominn langt á eftir áætlun með þýðinguna, ég er almennt á eftir áætlun. En hvaða áætlun það er sem ég næ ekki að fylgja veit ég ekki almennilega, samt klingja viðvörunarbjöllur í sífellu til að minna á einhver ógnandi deadline. Tölvan mín neitaði að slökkva á sér í gær og lýsti sinni hvítu birtu yfir mig. Á skjánum starði á mig texti þýðingarinnar á meðan ég sat yfir lestri eins og til að minna á hið óleysta verkefni.

Í dag held ég áfram að lesa. Enn er kveikt á tölvunni en ég hunsa hana og hef ákveðið að setjast annars staðar í dag svo ég sjái bara bakið á tölvuskjánum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.