Espergærde. Tvisvar í lífi mínu

Tvisvar í lífi mínu hef ég unnið á bar; einu sinni á Ítalíu í Mílanó á hálfgerðum leynibar þar sem fáir komu. Hann hét Winslow & Winslow Old English Pub. Hitt skiptið vann ég á lítilli, aftar snyrtilegri krá í einu af úthverfum London rétt við Shelhurst Park sem heitir eða hét The Clifton Arms.

Eigandinn, Sofie, var Gyðingur með stóru G-i. Hún var ekki bara fyrst og fremst gyðingur hún var nánast eingöngu gyðingur. Hún talaði ekki um sig sem konu – hún var ung, greind og bráðfalleg – hún talaði ekki um sig sem bareiganda, þótt hún hefði afrekað það á unga aldri að eignast þessa krá og hún talaði ekki um sig sem dugnaðarfork þótt sjaldan hafi ég hitt duglegri manneskju. Hún taldi ekki skrefin sín. Hún var Gyðingur. „Ég er Gyðingur,“ sagði hún á hverjum degi.

Ég fór að hugsa um Sofie í gærkvöldi þegar ég rakst á setningu í bók sem ég var að lesa: Að óttast Drottinn er upphaf spekinnar. Og allt í einu birtist hún mér í huganum, Sofie og The Clifton Arms. Það er orðið langt síðan það var. En einmitt þessi sömu orð á ensku, The fair of the Lord is the beginning of wisdom ... voru prentuð með pínulitlu letri á gulan renning sem Sofie hafði límt á peningakassann á kránni. Í hvert skipti sem ég afgreiddi hina áköfu ensku bargesti – flestir með Crystal Palace trefil um hálsinn – las ég því þessi orð og þau sitja enn föst í mér.

Ég bjó ekki lengi í London en ég afrekaði að kaupa mér mótorhjól sem ég notaði til að ferðast um Suður-England þegar ég átti frí hjá Sofie. Ég hafði alltaf haft þann draum að flytjast um tíma til Englands, bæði foreldrar mínir og systir höfðu áður búið í Englandi og í mínum huga var England grösugar hæðir, mjóir hlykkjóttir sveitavegir, sveitakrár og heiðarlönd þar sem villihestar stóðu þöglir í heiðarþokunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.