Espergærde. PR-maðurinn

Ég hafði ekki séð það fyrir að ég ætti eftir að nota heilan dag í að auglýsa sjálfan mig. En það gerði ég í gær. Mér finnst það ekki létt verk og þótt ég segi kannski ekki að ég skammist mín fyrir þessa iðju finnst mér þetta dálítið neyðarlegt. Ég ákvað sem sagt að skrifa til þeirra fjölmiðla sem mig langar að tala við þegar ég kem til Íslands vegna útgáfu nýju bókarinnar. Ég legg af stað með flugi þann 29. september frá Danmörku og lendi samdægurs á Íslandi. Ég hef þegar fengið flugmiða. Svo er það annað mál hvort flugfélagið flýgur á þessum degi. Þessi mikla auglýsingaherferð mín hefst því þann 5. október þegar ég er búinn að afplána einangrunarvistina í Hvalfirðinum.

Það gladdi mig auðvitað óskaplega að allir sem ég hafði samband við og hafa náð að svara erindi mínu voru yfirmáta jákvæðir og samvinnufúsir. Allir voru boðnir og búnir að greiða leið mína. Ég var því bæði snortinn og svolítið undrandi hvað mér var tekið af mikilli og innilegri hlýju. Allt bendir því til þess að þessi hlægilega PR-herferð mín heppnist því betur en ég hafði látið mig dreyma um.

Á meðan ég dundaði mér við að herja á fjölmiðlamenn á Íslandi gerði ég heimasíðu fyrir höfundinn, www.snaebjornarngrimsson.com. Allt er þetta frekar hégómlegt en ég neyðist víst til að berjast fyrir rithöfundarferlinum og þá verður maður að gera sitt besta til að selja bækur. Annars þarf ég að fara í byggingarvinnu, sem er kannski ágætt, en ekki það sem mig dreymir um.

ps. Ég hljóp í morgun mitt svokallaða langhlaup. Ég tek framförum. Ég hljóp suma kílómetrana nokkuð undir 5 mínútum (það er minna en 5 mín pr. km). Garmin úrið mitt sýnir að ég hef 46 í svokölluðum VO2 Max level sem þýðir að ég líkamasaldur minn er 20 ár. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.