Espergærde. „Þú skalt forðast báðar.“

Morgnarnir hér geta verið fallegir. Í morgun var háskýjað og lygnt þegar ég gekk rámur og syfjulegur út í heiminn. Kannski eru sunnudagsmorgnarnir þeir fallegustu, hugsaði ég, því þá er kyrrðin enn meiri en aðra morgna; það er varla sála á ferli, lágvær svefnhljóð berast úr húsum og söngur fuglanna er angurværari svona árla dags þegar allt er rólegt.

Venjulega hitti ég ekki marga á göngunni. Ég hafði gengið í rúmar tíu mínútur frá heimili mínu þegar ég mætti frakkaklæddum manni sem bar brúnan bréfpoka úr bakaríinu. Á pokanum var glansandi fitublettur. Ég kannaðist vel við manninn enda höfum við rekist hvor á annan oftar en einu sinni og stundum höfum við meira að segja spjallað saman. Ég sá á svip mannsins að hann var ákafur og það lék bros um varir hans, eins og hann byggi yfir einhverju mikilvægu og þegar hann sá mig herti hann gönguna, sennilega til að komast hraðar yfir svo hann gleymdi ekki því sem hann hafði í huga að segja við mig.

„Góðan daginn,“ sagði ég kurteislega. „Kökur með morgunkaffinu?“ bætti ég við og benti á bakaríspokann.
Hann lét ekki þessa athugasemd slá sig út af laginu, hann gaut augunum eitt andartak á pokann en sagði svo. „Þekkirðu Schopenhauer?“
„Nei, eða ég hef heyrt nafnið. Er hann ekki heimspekingur?“ svarði ég.
„Jú, heimspekingur, held ég. Þau eru búin að hengja mynd af honum uppá vegg í bakaríinu með tilvitnun sem ég skil ekki alveg. Eða alls ekki. Það eru tvær ólíkar manntegundir í heiminum, stendur skrifað efst á plakatinu með stórum stöfum.“
„Já?“ svaraði ég og ætlaði að bæta einhverju við þessa háspekilegu athugasemd en hann greip fram í fyrir mér.
„Og svo stendur neðst á þessu sama plakati. Og þú skalt forðast báðar.“ Hann þagnaði eitt andartak eins og til að íhuga þessi orð einu sinni enn. „Ég er búinn að hugsa um þetta alla leiðina frá bakaríinu. Mér finnst þetta bara svo óskiljanlegt. Sérstaklega þegar maður stendur inni í kökubúð, tilbúinn að kaupa bakkelsi.”
Ég hef sennilega ekki getað leynt undrun minni, ég vissi heldur ekki hvernig ég átti að skilja þessi orð bakarameistarans.
„Þetta er Schopenhauer á sunnudagsmorgni!“ sagði hann svo hlæjandi og arkaði af stað sveiflandi bakaríspokanum.

Ég er líka búinn að hlaupa sunnudagshlaupið og það var sögulegt hlaup því ég náði langþráðu markmiði mínu. Takmarki sem ég hef stefnt að í meira en þrjá mánuði; að hlaupa 5 km á meðalhraðanum 5 mín pr. km.

Þegar ég hóf aftur að hlaupa eftir langt meiðslahlé var tíminn ekki til að hrópa húrra fyrir. Ég held að ég hafi hlaupið á 5:47 mín per kílómeter í fyrsta hlaupinu. Það var því ánægjulegt að setjast niður á steininn við endamarkið í morgun og sjá að mér hafði tekist ætlunarverk mitt að hlaupa hvern kílómeter á fimm mínútum. Ég tók mynd sem sýnir útsýnið frá steininum þar sem ég sest örmagna að loknu hlaupi. Myndina birti ég efst á síðunni. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.