Espergræde. Kappgangan

„Á morgnana þegar sólin kemur aftur er enn hægt að vona.“ Kannski einhvern veginn svona hefst ný skáldsaga Kazuo Ishiguro, Klara and the Sun sem er væntanleg í mars á næsta ári. Ég varð glaður þegar ég frétti af útgáfu bókarinnar og íhugaði hvort ég skyldi skrifa til skáldsins og spyrja hvort ég mætti lesa handritið. Þetta datt mér í hug því ég get varla beðið. En þrátt fyrir þessa miklu löngun setti ég bönd á sjálfan mig og ákvað ég skyldi bara bíða fram í mars og vona að ég fái möguleika á að lesa bókina þá.

Fyrir að auglýsinga hina nýju bók Kazuo Ishiguro hér á hinum vinsæla vefmiðli Kaktusinn.is fæ ég greidda væna summu; fulla poka af gulli.

Ég fékk nokkuð óvænta spurningu í morgun sem ég hef sjálfur ekkert svar við. Ég gekk greiðlega eftir Strandvejen. Sólin var nýstigin upp úr hafinu og á framundan á gangstéttinni sá ég gamla, gráhærða konu skima út á sundið á göngu sinni. Hún kom úr andstæðri átt og þegar hún sá mig nálgast nam hún staðar og rétti út aðra höndina – svolítið hjálparlaust. Hún blakaði gamalli, hvítri og æðaberri hendi út í loftið sem merki um að ég skyldi líka nema staðar, eins og hún, og eiga orð við hana. Mér datt helst í huga að hún þyrfti á aðstoð að halda því hún var nokkuð öldruð og studdi sig við göngugrind á hjólum.
„Heyrðu mig, væni. Ég sé þig svo oft hérna á göngu. Þú gætir vitað þetta … Hvernig er það, er Oslóbáturinn (Oslobåden, er ferjan sem siglir milli Kaupmannahafnar og Osló) hættur að sigla?“
„Oslóbáturinn?“ ég leit spyrjandi á konuna og svo út á blýgrátt Eyrarsundið eins og til að athuga hvort ég kæmi auga á Oslóbátinn á siglingu. En enginn Oslóbátur sigldi hjá, bara gámum hlaðið, rautt flutningaskip með hvítu húsi sem mjakaðist hægt í suðurátt með allt sitt þunga góss og skar hvíta rák í hafflötinn.
„Já, Oslóbáturinn … veistu hvort hann sigli enn?“ spurði gamla konan og leit einbeitt á mig. Hún beið sannarlega spennt eftir svarinu.
„Nei, það veit ég bara ekki. Ég hef ekki heyrt að hann sé hættur áætlunarferðum.“
„Ég er vön að sjá hann sigla hérna á morgnana. Um klukkan sjö kemur hann venjulega fyrir bugðuna við Krónborgarkastala með stefnu í átt til Kaupmannahafnar. En ég hef staðið hér nokkra morgna og báturinn hefur bara ekki komið.“
„Nei?“
„Ég er nefnilega vön að fara í kappgöngu við bátinn þegar hann siglir hérna niður eftir.“
Ég leit á göngugrindina og á gömlu konuna sem horfði á mig með gömlum augum eins og ekkert væri sjálfsagðara í þessum heimi en að fara í kappgöngu við Oslóbátinn.

ps. Ég hafði í hyggju að skrifa um svolítið annað en ég ákvað – eftir nokkra umhugsun – að bíða með þá frásögn því ég er ekki viss um að hún, frásögnin (no. kvk.), eigi heima hér í minni virðulegu dagbók. Meira síðar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.