Espergærde. Maðurinn í köflóttu skyrtunni.

Í dag þegar sólin skín svona bjart og ég hef átt spjall við mann í þykkri köflóttri skyrtu sem hælir sjálfum sér fyrir að hafa verið einn af aðalmönnunum í hreyfingu sem stofnuð var í kringum 1970 og barðist gegn tölvuvæðingu – sem honum finnst enn göfugt baráttumál – verður mér hugsað til annarra baráttumanna; hinna íslensku rithöfunda og andúð þeirra á stafrænni bóksölu. Ég sé ákveðna samsvörun í hugmyndum hins íslenska bókabransa um stafrænar útgáfur bókmennta og hugmynda þessa aldraða manns í þykku, köflóttu skyrtunni um tölvuvæðingu. En ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég er óskaplega glaður að eiga tölvu. Maður veit aldrei, kannski hefði líf mitt orðið enn betra ef engar tölvur hefðu komið í heiminn, það veit ég auðvitað ekkert um, en ég er bara glaður að geta nýtt mér tölvuna mína, MacBookAir frá árinu 2015. Mörg verkefni hef ég leyst á léttri hátt með tölvu en án hennar. Það segir þó ekkert um hið svokallaða hamingjustig mitt.

En það sem ég vildi sagt hafa og er mikilvægasta mál dagsins. Í gær las ég frétt um að næststærsta forlag Danmerkur L&R hafði sent út yfirlýsingu um að á næstu tveimur árum væru þau á forlaginu neydd til að bæta við 40 nýjum starfsmönnum. Allt gengur glimrandi vel í bókabransanum hér í DK. Kannski ætti ég bara að sækja um starf hjá L&R og fara að vinna eins og almennilegur maður frá 8 til 16, fá mánaðarlaun og 4 vikna sumarfrí.

2020 hefur verið sérstaklega gott bókaár – bæði fyrir stafrænar bækur (rafbækur og hljóðbækur) og hinar prentuðu – og það skapar frjóan jarðveg fyrir metnaðarfullu áætlanir L&R. Forlagið hefur nefnilega algjörlega veðjað á hina stafrænu útgáfu þar er árlegur vöxtur um það bil 20% og hefur veirufaraldurinn bara knúið þessa þróun enn hraðar áfram.

L&R rekur undirforlagið Saga sem sérhæfir sig í að kaupa bak-katalóga (gamlar útgáfur) höfunda eins og Agöthu Christie, Wilbur Smith, Barböru Cartland og fleiri og fleiri og gefur þessa höfunda út bæði á hljóðbókum og rafbókum og á fjölmörgum tungumálum t.d. á rússnesku, hollensku, tyrknesku, arabísku, swahili og hindi. Og á þessu ári ná Saga menn að bjóða lesendum sínum upp á 100.000 stafræn verk og lesendurnir eru margar milljónir.

Bókabransinn hér í DK hefur tekið þessari nýju útgáfuaðferð opnum örmum og sér möguleika í hverju horni. Æ fleiri lesendur sækja í bókmenntir með því að hlusta eða lesa á skjá. En á sama tíma og þessi hraðfara þróun á sér stað í Danmörku heyrir maður því miður hávært væl, svartsýnismuldur og bölmóð frá Íslandi. Sérstaklega er leiðinlegt að hlusta á suma rithöfunda sem sjá þessari stafrænu þróun allt til foráttu. Í stað þess að fagna þróuninni, vinna að því að gera stafræna útgáfu bóka vinsæla og gjöfula, fá fleiri lesendur, fara áberandi íslenskir rithöfundar í skotgrafir og sjá litla möguleika í útgáfu á þessu nýja formi. Þetta minnti mig á manninn í þykku, köflóttu skyrtunni sem var svo gífurlega mikið á móti tölvuvæðingunni.

Umræðan á Íslandi snýst að mestu um að útlend öfl (sænska Storytel) séu að reyna að svindla á fátækum höfundum frá litla Íslandi með því að bjóða lesendum aðgang að bókunum á rafrænu formi gegn greiðslu sem rennur að mestu í vasa sænsku svindlarana. Ég hefði haldið að upphæð greiðslunnar sem rennur til höfunda hlyti að vera samkomulagsatriði; hvert er söluverð hinnar rafrænu útgáfu og hver er réttmætur hlutur höfundarins? En svona hljóðaði frétt í vefritinu Kjarnanum fyrr á árinu. „Bjarni M. Bjarnason rithöfundur og stjórnarmaður í Rithöfundasambandi Íslands segir að eldsneytið sem knýi veldi Storytel áfram séu peningarnir sem rithöfundar fái ekki lengur fyrir verk sín.“ Gamli, sorry Gráni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.