Espergærde. Allur heimurinn er grænn eins og þang.

Ég vil byrja á að lýsa gleði minni yfir tónlistarmanninum Rosemary Standley – hún hefur meðal annars flutt ógleymanlega útgáfu af Tom Waits laginu, All the World is Green.

Ég minnist á þetta hér því í gærkvöldi fannst mér ég þurfa að sitja yfir þýðingu minni og ég hlustaði á Rosemary Standley. Mér þóttu afköstin í gærdag ekki nógu góð og kenndi ég fyrst og fremst óvenjulegri bakþreytu um hin slöppu afköst. Ég gat eiginlega ekki setið kyrr, þvílík var óeirðin í kroppnum. Ég er byrjaður að gera æfingar eftir einhverju „appi“ og þetta „app“ er eins byggt upp og mörg önnur „öpp“ maður læsist inni í einhverju kerfi og gefur sig því á vald. Æfingarkerfið er byggt upp þannig að ef mér tekst að ná ákveðnum árangri eftir tvær vikur fæ ég verðlaun og þegar mér tekst að ná öðru marki eftir þrjár vikur fæ ég önnur verðlaun o.s.frv. Tölvurisarnir hafa rutt braut fyrir einhvers konar virkri skilyrðingu notenda sinna. Eins hlægilegt og það er, sækist maður eftir gervihóli, gerviklappi, gerviverðlaunum og það vita hönnuðir tölvurisanna. Þeir leika sér að manni eins og köttur að mús. Hönnuðir æfingakerfisins sem ég hef látið glepjast af koma í veg fyrir að ég sleppi morgunæfingum sama hversu illa upplagður ég er. Ef ég sleppi úr æfingu fjarlægist verðlaunin sem ég sækist svo eftir. Sennilega var ég bara hreinlega útkeyrður í gær og því allur þessi líkamsórói. Ég hleyp (svokölluð langhlaup) og geri æfingar og bráðum verð ég svo vöðvastæltur að menn fara að kalla mig Hulk. En ég var þreyttur í kroppnum í gær.

Já, ég ætlaði að minnast á Rosemary Standley. Í gærkvöldi sat ég sem sagt og barðist við að ná því marki sem ég hafði sett mér í þýðingu dagsins og ég barðist líka við þessa skelfilegu óeirð í kroppnum. Ég segi það satt; ég kveikti á Rosemary Standley og lét hana skemmta mér og ég varð bara svo glaður yfir söng hennar og hljóðfæraleik að ég gleymdi bæði stað og stund. Tíminn leið – borinn af söng Rosemary – og allt í einu var ég kominn að endamarkinu í þýðingunni. Mig langaði svo að klifra upp á þak og tilkynna heiminum hvað Rosemary Standley hafði gert mig glaðan en það gerði ég ekki. Kaktusinn er mitt þak og héðan hrópa ég til heimsins: All the World is Green.

ps All the World Green (hér er linkurinn til flutnings Rosemary) er hluti af tónlistinni sem Tom Waits samdi fyrir leikritið Woyzeck eftir George Büchner.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.