Espergærde. Af svefnlausum yfirlesara.

Það haustar. Það finnur stóra nefið þegar það kemur út undir bert loft í morgunkulið til að fá sér hlaupatúr (langhlaup). Þótt laufin séu enn græn á trjánum, grasið haldi áfram að spretta og garðhúsgögnin séu enn úti á verönd eru í loftinu mörg merki um haustið. Til dæmis er það greinilegt haustmerki að hingað berast fréttir af íslenskum bókum sem eru á leið í prentun (í útlöndum) svo þær verði klárar fyrir jólasöluna, ég fæ upplagstölur, ég fæ fréttir um söluvæntingar og ég heyri vangaveltur hvort hinn eða þessi höfundur „nái í mark“ áður en síðasti frestur rennur út fyrir þátttöku í jólabókaflóði. Það eru nokkrar bækur sem ég hlakka til að lesa, (ég nefni ekki bækur vina minna) t.d. er ég spenntur að lesa nýja bók Auðar Ólafsdóttur …

Af öllum þeim fréttum sem mér hafa borist um væntanlegar bækur þótti mér skemmtilegast að heyra af yfirlesaranum – það er vandfýsinn hópur fólks og getur verið svo kaldur gagnvart bókatextum – sem varð að fara aftur á fætur um miðja nótt til að halda áfram að lesa yfir handrit sem honum (yfirlesari no. kk.) þótti svo grípandi og áhugavert að svefninn vildi bara ekki koma fyrir spenningi. Þegar ég heyrði þessa sögu ærðist ég af forvitni að heyra um hvaða bók var að ræða. Og í morgun fékk ég svalað forvitni minni. Ný skáldsaga Sigríðar Hagalín mun víst grípa lesandann, og yfirlesarann, slíkum heljartökum að erfitt er að taka hugann frá bókinni fyrr en sögunni er lokið. Þetta heyrir maður oft í auglýsingatexta og tekur slíkar yfirlýsingar auglýsingastofu misalvarlega. En þegar maður heyrir af yfirlesara – þessari kaldlyndu stétt – sem missir nætursvefn vegna bókar sperrir maður eyrun.

Annars held ég að íslensk forlög gætu lært dálítið af nýju meðalstóru forlagi hér í Danmörku varðandi kynningu á bókum og höfundum. Nýja forlagið, Gutkind, hefur náð einstökum árangri í að kynna nýju bækurnar sínar í sumar og haust (útgáfubækur þeirra fylla alla metsölulista). Þau hjá Gutkind ná að koma því inn hjá áhugafólki að forlagið sé svo heppið með höfunda sína, heppið með hvað þau fá að gefa út góðar og athyglisverðar bækur að þau geta bara ekki hætt að hlæja og fagna. Þegar ég fylgist með þessari gleði – sem þau miðla í gegnum félagsmiðla og blaðaauglýsingar – við að gefa út bækur hugsa ég með mér: Svona vildi ég gefa út bækur og svona forlag vildi ég hafa fyrir mínar bækur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.