Ég byrjaði að skrifa hér í dagbókina fyrr í morgun. Svo fór ég út að hlaupa (langhlaup), gerði hinar ægilegu leikfimiæfingar og hressti mig svo við með því að fara í sturtu. Nú er klukkan að verða hádegi og ég er sestur aftur fyrir framan minn Kaktus en ákvað að eyða því sem ég hafði skrifað fyrr í morgun. Ég var ekki ánægður.
Ég hafði verið svo hrifinn af ungri konu, rithöfundi og sviðskonu frá Austurríki, sem hefur aldeilist fengið hjörtun til að slá og sett heilastarfsemina upp í 1000 gráður hjá hinum velmeinandi (og þýskumælandi). Ég las viðtal við hana í gærkvöldi og mér fannst hún ansi góð. Hún skýtur ansi beittum skotum á femínista, Gyðinga, svarta, MeToo-hreyfingu, og sérstaklega á hina kórréttu … sem sagt allt sem fær hjörtun til að slá. „Mér svo skítsama hvort fólk byggir sitt identitet á kyni, trú, kynþætti eða pólititík. Allt þetta er hreinn egóismi. Það hjálpar engum að skilgreina heiminn út frá geldri og óuppbyggilegri leit að sjálfum sér. Þannig býr maður ekki til listaverk eða tekur þátt í stjórnmálum. Mér er í sjálfu sér hundsama um viðkvæmnislegar tilfinningar fólks. Ég læt mér nægja að sjá hvað fólk gerir.“
Ég hafði sem sagt legið upp í rúmi í gærkvöldi og lesið sunnudagsblað Politiken og það voru svo margar langar greinar um allt milli himins og jarðar; um hugmyndir Hegels, um þessa austurísku konu, um bókmenntir, tónlist, stjórnmál, fótbolta, samband Bale og Zidane … að ég varð stórhrifinn og dásamaði að enn væri mögulegt að gefa út dagblað með svona metnaðarfullt innihald. Ég varð eiginlega djúp hrærður yfir að þetta væri enn hægt. Dagblöðin eru að deyja og í stað dagblaðanna leitar fólk inn á félagsmiðlana til að fá sitt input. En því miður er það oft á svo lágu plani, svo trivialt og lítils virði. Því miður. Allt fær að fljóta þangað inn, sorp og gull, og svo liggur það þarna að eilífu og allt verður einhvern veginn einskis virði. Það eru sem sagt afar léleg skipti að missa vönduð dagblöð og fá Facebook í staðinn.
Mér fannst ég að minnsta kosti bæði verða glaður, ríkur og gáfaðri af að lesa allt þetta vandaða efni sem Politiken bauð upp á í gær. Yo!