Espergærde. Kaflaskil

Síðast þegar ég var á Íslandi, og það er að verða þrír mánuðir síðan, rakst ég á mann sem ég hef örugglega ekki hitt í meira en tuttugu ár. Ég var á göngu eftir Hofsvallagötu þegar ég sá hann standa við biðskýli Strætisvagna Reykjavíkur, SVR. Það fór ekki fram hjá mér að hann var órólegur og óþolinmóður; skimaði hvað eftir annað eftir vagninum sem hann beið eftir.

Þegar ég kom að biðskýlinu heilsaði ég manninum. „Blessaður og sæll,“ sagði ég og ég tók eftir að hann eiginlega hrökk í kút eins og hann væri alóvanur því að einhver ávarpaði hann svo ég bætti við í rólegum og nánast sefjandi tón: „Ægilega er langt síðan ég hef rekist á þig.“ Hann horfði hugsi á mig og ég reyndi að gera mér grein fyrir hvort hann væri að reikna út hve langt síðan við hefðum rekist hvor á annan eða hvort hann hreinlega þekkti mig ekki aftur. En skömmu síðar rofaði til hjá honum og hann fór að segja mér hvað á daga hans hefði drifið og það voru eintómar hörmungar, kannski ekki tómar hörmungar, en nánast. Gleðistundirnar virtust að minnsta kosti hafa verið fáar hjá honum þessi ár þar sem vegir okkar höfðu ekki legið saman. En hvað um það. Við kvöddumst þarna á Hofsvallagötunni og hann fór leiðar sinnar með strætisvagni og ég hélt fótgangandi áfram á minn áfangastað.

Í gærkvöldi sat ég í mínum virðulega, bláa stól á heimili mínu og las alþjóðlegt dagblað. Það lá vel á mér, ég trallaði einhverja lagleysu í huganum á meðan ég las fréttir frá fjarlægum heimshornum. Ég var í þann mund að fletta yfir viðskiptasíðu blaðsins þegar ég, mér til undrunar, rakst á mynd af þessum sama manni sem ég hafði síðast séð norpa í biðskýli strætisvagna Reykjavíkur við Hofsvallagötu. Á myndinni var hann afar spariklæddur í jakkafötum með bindi og stóð á tröppunum fyrir utan einhverja virðulega viðskiptabyggingu í New York-borg. Í myndatextanum var sagt frá manninum og nafni hans en ekki var minnst einu orði á allar hans tuttugu ára löngu hörmungar sem hann hafði lýst fyrir mér, heldur var einungis greint frá stórkostlegum viðskiptasamningi sem hann hafði nýverðið gert fyrir hönd sín og fyrirtækis síns. Samningurinn mun víst gera hann einn af stórefnamönnum heimsins. Þetta þóttu mér tíðindi og ég velti fyrir mér hvort viðskiptasamningurinn væru kaflaskil hjá manninum því ég veit auðvitað ekkert um hvort öll þau leiðindi sem hann hefur mátt þola síðustu tuttugu ár (og nú þrjá mánuði) séu nú að baki eða haldi áfram þrátt fyrir hinn nýfengna auð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.