Espergærde. Að hlaupa á hest

Yfir litla bænum mínum á Norður-Sjálandi hefur þykk þoka læðst í land í skjóli nætur og svo þétt er þokan og dimm að erfitt var að sjá lengra en tíu skref til hvorrar handar. Og það var einmitt þessi morgunþoka sem mætti mér þegar gekk út snemma í morgun. Ég var klæddur í gráan stuttermabol sem ég hafði þegið að gjöf fyrir mörgum árum. Þegar ég smeygði mér inn í morguninn hugsaði ég með mér að ég skyldi hlaupa (langhlaup) út í sveit og sjá hvort ég hitti hesta í suddamóðunni. Mig hefur alltaf dreymt um að hlaupa á hest sem stendur kyrr og rennur saman við koldimma þokusvækjuna, eins og hestar gera.

Og ég hljóp af stað og beinustu leið út í skóg sem var koldimmur í skýjaþykkninu. Enginn var á ferli eins og allir heimsins hundaeigendur sem eigra með hunda sína hefðu forðast dimman skóginn þennan morgun. Lauftrén sem gnæfðu yfir mér uxu upp í himininn; trjátopparnir stungust upp í þokuskýin og hurfu upp í himineilífðina.

Ég hitti engan hest, ég hljóp ekki á hest. Engir hestar voru á ferli í morgun en ég mætti tætingslegum ref á miðjum skógarstíg og hann horfði hissa á mig þegar ég kom hlaupandi og dró á eftir mér þokuský sem hvirflaðist í hlaupasoginu. Hann hefur sennilega haldið að ég væri sá sem framleiddi allt þetta kóf, að það streymdi út um bakið á mér. Refurinn var svo undrandi að hann gleymdi næstum að flýja þegar ég kom hlaupandi á ofsalegum hraða.

Í dag er miðvikudagur. Ég veit ekki hvað bíður mín í dag. Sjáum til. Haustið er að minnsta kosti komið, dagarnir styttast og laufin á trjánum fara bráðum að gulna undan kuldanum: „Djúpt sofnar hlíðarinnar jurt þegar rökkvar og kólnar.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.