Espergærde. Hinir dauðu

Á ferð minni inn til Kaupmannahafnar í gær gengum við inn í gamla Assistens-kirkjugarðinn inni á Nørrebro. Þar liggja grafin helstu mikilmenni dönsku þjóðarinnar; HC Andersen, Søren Kirkegaard, Niels Bohr, Martin Andersen Nexö og Dan Turrel, svo einhver stórmenni séu nefnd. En það var einmitt við gröf Dan Turrels sem ég fór að velta fyrir mér hvað erindi maður ætti eiginlega við grafsteina fólks sem manni fannst hafa staðið sig vel í lifandi lífi. Í grasinu fyrir framan legstein Dan Turrels hafa aðdáendur hans stungið penna í jörðina eins og til að lána skáldinu penna. Ég hef aldrei verið aðdáandi Turrels svo mér var svo sem alveg sama þótt ég hefði engan penna meðferðis til að lána skáldinu. Ég fylltist ekki lotningu við grafsteininn.

Mér þótti hins vega mjög gaman að koma að grafreit Sørens Kirkegaard. Einhver hafði sett tvær krónur á legsteininn, kannski til að leggja í púkk fyrir farinu til baka í ríki lifenda. Ég hafði því miður enga smámynt á mér svo ég gat ekki lagt í púkkið þótt ég feginn vildi.

Kirkjugarðurinn er fallegur og gaman að vafra um hann á á göngustígunum milli grafstaðanna. Á þessu rölti fór ég að hugsa um Arthur Rimbaud, franska skáldið sem grafinn er í norður-franska bænum Charleville-Méziéres en einmitt þann stað hataði skáldið. Til bæjarins koma hjarðir af aðdáendum skáldsins til að sjá grafreitinn (Patty Smith hefur sést þar og fleiri stórstjörnur) og votta skáldinu virðingu sína. En Rimbaud var eins og Patty hálfgerð rokkstjarna, ljóðrokkari síns tíma. Hann þótti heillandi náungi og nú vill hópur gáfumanna flytja jarðneskar leyfir Rimbauds í Panthéon-hofið í París þar sem allir mikilverðustu landsmenn Rimbauds liggja grafnir. En það er ekki nóg að Rimbaud skuli grafinn í Panthéon heldur vilja gáfumennirnir líka að elskhugi hans og ljóðskáldið Paul Verlaine verði látin liggja við hlið hans.

En hvað hafa þessir tveir uppreisnarmenn að gera í köldum kjallara í París löngu eftir dauða þeirra? Panthéon er sjálft tákn þeirrar stofnunar sem þeir hötuðu svo heitt. Megnið af skáldverki Rimbauds er óður gegn franska lýðveldinu og sjálf hugmyndin um sameiginlegt föðurland fannst honum slæm. Rimbaud var enginn fyrirmyndar borgari; líf hans var fullt af allskyns skandölum, hann drakk sjálfan sig nær í hel og tókst nánast að eyðileggja sjálfan sig með eiturlyfjaneyslu.

Rimbaud endaði líf sitt í Eþíópíu þar sem hann vann meðal annars fyrir sér sem vopnasali en í millitíðinni hafði hann orðið fyrir byssuskoti frá ástmanni sínum til tveggja ára Paul Verlaine. Því skyldu þeir þá liggja saman, dauðir í gröf í miðri Parísarborg?

En ég er sem sagt kominn heim aftur eftir þessa stuttu heimsókn til Kaupmannahafnar í gær. Og á morgun flýg ég svo til Íslands. Allt bendir til þess að Icelandair ætli að fljúga með mig, því fyrir nokkrum klukkutímum fékk ég skilaboð frá flugfélaginu um að þeir hefðu breytt brottfaratímanum á morgun sem flugfélagið mundu varla gera ef engin áform væru um að fljúga til Íslands þennan dag.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.