Hvalfjörður. Fyrsta nóttin

„Hér er ég,“ sagði ég eins og Abraham þegar Guð kallaði til hans á sínum tíma. Abrahams beið mikið próf. En það var ekki beint Guð sem ég ávarpaði þegar ég settist niður með þessum orðum við eldhúsborðið hér í Hvalfirðinum í morgun. Ég talaði eiginlega bara við sjálfan mig, svona til að reyna að halda uppi smá fjöri. Ég komst ekki hjá því að taka eftir að yfir Hvalfirðinum var furðulegt ljósaspil; ljóskeilur brutust niður úr skýjunum og ljóminn var svo guðlegur að ég gat ekki varist þeirri hugsun að sjálfur herra himinsins lýsti niður til mín og sendi mér krafta sína. En hér er ég, einn að þessu sinni, og hér rignir. Aftur er komið vatn í litlu tjörnin við eldhúsgluggann sem var þurr í sumar og lauf birkigreinanna er nú gulnað.

Ég hef hlakkað til að koma hingað og hlakkað til að vera hér í 6 daga einangrun þar sem ég get sökkt mér á bólakaf í verkefni mín og ég hlakka til að hitta mitt fólk þegar ég er búinn að afplána tilskildum dögum í sóttkví. Í nótt fékk ég skilaboð frá þeim sem sjá um veiruprófin á Íslandi og þau færðu mér góð tíðindi; að ég væri veirulaus og hreinn eins og engill.

En nóttin, fyrsta nóttin í Hvalfirðinum, var óróasöm. Þannig er það víst alltaf hjá mér þegar ég hef farið í vinnubúðir; taugarnar trufla mig og ég er svo hræddur um að mér takist ekki að ná góðum takti við vinnuna, að ég sitji bara, klóri mér í hausnum og komist ekkert úr sporunum. Ég vaknaði því oft í nótt, lá lengi vakandi og bylti mér. Á endanum lagðist ég á bakið og einbeitti mér að því að draga andann djúpt og rólega þar til ég sofnaði aftur. Svona eru nú taugarnar þandar á hinum nefstóra Íslendingi. En um leið og ég kemst í gang verð ég rólegri.

Ég sá að forleggjari minn var í viðtali við Morgunblaðið í morgun. (Egill Örn er víst framkvæmdastjóri Forlagsins ekki forleggjari … en hvað um það …) Í viðtalinu sagði hann að sala á pappírskiljum sé mjög dalandi og svo mikil er söluminnkunin að sennilega verða forlögin að draga saman seglin … aftur. Það ergir mig að fréttir af bóksölu á Íslandi eru mjög á einn veg: allt er á niðurleið og það er volað og skælt. Er þetta meðvituð aðferð íslenskra bókaforlaga til að reyna að fá aukinn stuðning frá hinu opinbera? Að fá einhverja vorkunnarpeninga? Kannski er ég alveg úti að aka en mér finnst þetta ekki rétta leiðin út úr ógöngum bóksölunnar á Íslandi. Kannski er ég svo litaður af hugsunarhætti Sumarhúsbóndans að vilja alltaf standa einn og óstuddur, standa á eigin fótum. Kannski er ég jafnóraunsær og þver og Guðbjartur. En ég vildi óska þess að íslensk bókaútgáfa væri ekki svona mikið hokur. Ég hefði miklu frekar viljað lesa kraftmikið viðtal við Egil eða aðra bókaútgefendur um nýtt stórhuga framtak í bókaútgáfu til þess að auka áhuga og fjör í íslenska bókmenntaheiminum.

Einhver sagði við mig að bókaútgáfan væri ekki lengur staður þar sem ungt fólk dreymdi um að fá vinnu. Útgáfuna vantaði allan kynþokka; þar er ekki glamúr, gleði, kraftur, fjör, dulúð eða eftirsóknarverður kúltúr. Ætli það sé rétt?

Aftur er komið vatn í tjörnina fyrir utan eldhúsgluggann.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.