Hvalfjörður. Vöruflutningar

Ég hafði verið svo bjartsýnn í gærkvöldi þegar ég fór að sofa að ég tók þá ákvörðun að draga gardínurnar ekki fyrir svefnherbergisgluggana. Ég hafði hlakkað til að vakna til morgunskímunnar með útsýni út Hvalfjörðinn í gegnum stóru svefnherbergisgluggana. En svo fór máninn að skína um miðja nótt og lýsti upp svefnherbergið svo ég gat með engum móti sofið í þessari miklu mánabirtu. Ég fór því bara að lesa dagblaðið frá því í gær og rakst á frétt um að bækur Ragnars Jónassonar, glæpasagnahöfundarins, selji mest allra bóka í Þýskalandi. Bækur hans eru númer eitt, tvö og þrjú á hinum þarlenda metsölulista. Þetta er einstakt afrek. Um þetta hugsaði ég í nótt þegar ég lagðist aftur til svefns og hafði dregið fyrir svo tunglið héldi ekki lengur fyrir mér vöku.

Morgunbirtan í Hvalfirðinum.

Nú er morgun, ljósið af himnum er jafn guðdómlegt og í gær og hér út um gluggann verð ekki var við ferðir mannfólks. Niður á Hvalfjarðarvegi, þessari gömlu aðalleið, sést ekki bíll svo langt sem augað eygir. En ég hef tekið eftir því að þeir fáu bílar sem eiga leið hér um eru nánast allir einskonar vöruflutningabílar. Það er eins og hér keyri enginn nema til að flytja einhvern varning. Í gær þegar ég hljóp (langhlaup) eftir veginum í átt til Saurbæjarkirkju mætti ég þremur bílum; tveimur þunghlöðnum sendibílum og einum vöruflutningabíl með svo mikinn varning að hann hafði voldugan tengivagn í eftirdragi.

Í gær náði ég ekki alveg afkasta markmiði mínu. Þegar ég stóð upp frá vinnu til að búa mér til eitthvað að borða afsakaði ég mig með því að þetta væri fyrsti dagurinn og ég þyrfti smá tíma að komast almennilega í gang. Ég hef því skrúfað upp áætlaða dagvinnu í dag, til að vinna upp það sem á vantaði í gær. En það truflar mig örlítið að ég þarf aftur að taka á mig hlutverk PR-mannsins í dag til að fastsetja þau viðtöl sem bíða mín í næstu viku í tilefni af útkomu bókarinnar. Það tekur bæði tíma og orku frá mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.