astronaut waving hello

Hvalfjörður. Einangrunin

Lífið heldur áfram í einangruninni hér í Hvalfirði. Kannski er hvergi betra að vera í einangrun; hér er að minnsta kosti fallegt að horfa út um gluggann. Það er ekki mörg orðin sem ég segi á degi hverjum, í fyrradag ekki eitt einasta orð en í gær hringdi síminn minn óvænt og ég átti stutt samtal við rithöfund sem vantaði mikilvægar upplýsingar. Ég er svo sem ekki vanur að tala mikið þótt ég sé innan um annað fólk og sumum finnst ég stundum fullþögull.

Dagur í einangrun, fimmtudagurinn 1. október.
1) Vaknaði klukkan 06:02 (ég hef Garmin úr og þar get ég flett upp svefnlengd …). Lá í rúminu og fór í gegnum skilaboð frá kvöldinu áður á símanum mínum (ég á síma þar sem maður getur lesið bæði SMS og tölvupóst. Nýjasta tækni.) Las síðan helstu fréttir af New York Times vefnum.
2) Velti fyrir mér hvort ég ætti að fara í sturtu eða láta mér nægja að fara í sturtu eftir hlaup dagsins. Ég ákvað að bíða með sturtuna.
3) Morgunmatur: Tvö ristuð brauð með osti (osttegundin heitir Ljótur og er ansi ólystugur að sjá. En góður). Tveir bollar tvöfaldur espresso (tegund kaffiuppáhellingar).
4) Yfir morgunmatnum hlustaði ég á Rás 1, svokallað morgunútvarp. Einhvern veginn fer tempóið á þættinum í taugarnar á mér. (Já, furðulegt.) Ég er að reyna að venja mig við þetta. En mér finnst syfjuleikinn, hin tilbúna ró og afslöppun gera þáttinn eitthvað svo slappan. Þátturinn á að hljóma eins og „notalegt spjall“ og það verkar stressandi á mig því mér finnst menn ekki komast frá A til B heldur hringsnúast í langan tíma í kringum A.
5) Venjulega slekk ég á morgunútvarpinu eftir 10 mínútur þegar ég er búinn að fá nóg og er orðinn órólegur yfir þessu morgunhjali.
6) Setti þess í stað tónlist í gang. Í gær var það Varða, hljómplata Huga.
7) Gekk síðan út á verönd til að setja mig í gang, snúa mér í gang eins og gömlum mótor. Það var kyrrt veður og hálfskýjað. Hvalfjarðarfegurðin er engu lík. Botnsúlurnar voru snjóhvítar langt niður í hlíðar og sjálfur fjörðurinn nánast sléttur í logninu. Morgunsólin rétt byrjuð að gægist yfir tinda Botnssúlna.
8) Dagbókarskrif. Dagbókarfærsla dagsins. Og þar var mér hugleikið hvort vöruflutningar sé eini tilgangur þjóðvegarins gegnum Hvalfjörðinn. Hér er varla umferð bíla og sé ég vart fólksbíl á ferð, einungis þunghlaðna vöruflutningabíla af öllum stærðum og gerðum. Í þessum skrifuðu orðum verður mér litið niður á veg og sé einn bíl; hvítan bíl með yfirbyggðan pall og ég kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé dýraflutningabíll, það er bíll til að flytja lifandi dýr á milli staða.
9) Það tekur mig nánast aldrei minna en þrjátíu mínútur að skrifa dagbók dagsins. Ég veit aldrei um hvað ég ætla að skrifa; ég sest niður og læt kylfu ráða kasti.
10) Að loknum dagbókarskrifum hefst hinn eiginlegi vinnudagur. Markmiðin eru á hreinu og ég get sagt það hér og nú að afköst gærdagsins, þrátt fyrir töluverðar truflanir, voru 109,88%. Ég þurfti auk áætlaðra skrifa að sinna hinu svokallað PR-starfi; staðfesta viðtöl, fastsetja tíma fyrir viðtöl og svara fyrirspurnum um viðtöl vegna útkomu bókar í næstu viku. Eins barst mér í hendur hin enska þýðing bókarinnar sem ég skrifaði í fyrra. Þurfti ég að líta yfir hana því í ljós hafði komið að smá ruglingur hafði orðið í textanum. Eins hafði ég lofað mér og þýðendum bókarinnar að hafa samband við gamlan kunningja minn úr enskri útgefendastétt og fá hann til að gefa ráð til að vinna að framgangi á sölu bókarinnar í Englandi.
11) Hádegispása. Göngutúr niður að ruslagámum með hálftóman ruslapoka. Síðan gekk ég upp brekkuna og út eftir til að kíkja á nýtt hús sem er risið í hlíðinni hér ofar og utar. Mér skilst að einhver leikkona, eða leikstjóri, sé að byggja húsið. Ég furðaði mig svolítið á að arkitektinn hefði ákveðið að hafa gluggana sem snúa út á fjörðinn litla. Það held ég að séu töluverð mistök miðað við þá reynslu sem ég hef af veru minni hér. Fjörðurinn sjálfur er svo mikið augnayndi.
12) Eftir tæplega klukkutíma langan göngutúr, tók ég fram úr ísskápnum matarafganga frá því deginum áður; ægilegan kjúklingarétt sem ég hafði brasað og var hann bara enn betri kaldur. Á meðan ég borðaði las ég áfram í einni af bókunum sem ég er á leslista mínum.
13) Og svo var tölvan tekin fram að nýju og unnið látlaust til klukkan 17:30 með einu hléi. Það var þegar síminn hrindi. Stutt samtal þar sem ég gaf mikilvægar upplýsingar til rithöfundar.
14) 17:30 hlaupið af stað niður brekkuna og út til Saurbæjarkirkju (langhlaup). Mér fannst ég frekar léttur í spori og fyrstu tvo kílómetrana hljóp ég hratt 4:44 og 4:49 per kílómeter en svo fór að halla undan fæti (eða öfugt við tók svolítil brekka) og ég hægði smám saman ferðina. Síðasti hluti hlaupsins var kvöl og pína því hlaupin upp þessa löngu brekku frá þjóðveginum og að húsinu var óvenju erfið. Ætli hæðarmismunurinn sé ekki um 300 metrar. Ég skildi ekki alveg hvað kom yfir mig en ég varð óvenjumóður á leiðinni upp í gær.
14b) Ég hef hlaðið niður svokölluðu appi á símann minn. Þar eru sýndar leikfimiæfingar sem maður á að gera daglega ef maður er kyrrsetumaður. Þetta eru 12 æfingar sem maður á að gera í 30 sek og svo er 10 sek pása. Annan hvern dag endurtek ég þessar æfingar þrisvar sinnum en dagana sem ég hleyp geri ég æfingarnar einu sinni. En maður verður að gera æfingarnar daglega. Eftir að hafa óslitið æft í tvær vikur fær maður 9 danskar krónur í verðlaun og aðrar 9 danskar krónur eftir þrjár vikur. En maður verður að stunda æfingarnar daglega annars fær maður engar 9 danskar krónur. Nú er skrifverkstæðið mitt rekið með ægilegu tapi og því eru 9 krónur ekki til að fúlsa við. Ég stend mig og í gær fékk ég krónurnar inn á bankareikninginn eftir þriggja vikna óslitna ástundun.
15) Þá kom að því: sturta dagsins.
16) Ég nennti ekki að borða, eða nennti ekki að búa til mat. Mig dreymdi eiginleg um harðfisk og ég sá eftir að hafa ekki beðið Sölva um að kaupa harðfisk fyrir mig þegar hann var svo góður að kaupa í matinn fyrir mig áður en ég kom. Í stað þess að borða settist ég því aðeins yfir tölvuna aftur og snurfusaði, bætti við og eyddi en ákvað svo að stoppa og fylgjast með í seinni hálfleik í fótboltaleik (textalýsing) sem fram fór í útlöndum.
17) Lagðist upp í rúm með bókina mína. Byrjaði þó á að lesa Politiken, danska dagblaðið, og síðan tók bóklesturinn við. Undir lestrinum, staldraði ég eitt augnablik við og tók þá ákvörðun að nota meiri tíma næstu daga til að lesa.
18) Að loknum lestri fór ég út á verönd til að horfa á kvöldmánann. Tunglið var fullt og lýsti upp gjörvallan fjörðinn. Ég ákvað að pissa úti.
19) Lagst til svefns.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.