Að undirbúa bæjarferð héðan úr Hvalfirði er nýlunda. Nú eru liðnir fimm dagar í einangruninni og ég hef verið boðaður í sýnatöku niður á Suðurlandsbraut klukkan 12:00 í dag. Ég hafði vonast til að geta lokið þessu erindi á Akranesi, í bæ Guðjóns Þórðarsonar. Ég hringdi á Heilsugæslustöðina, bar upp erindi mitt (þetta voru fyrstu og einu orðin sem ég sagði upphátt þennan dag, ég er ekki mikill símamaður) og hin kurteisa kona í símanum sagði mér að slíkar sýnatökur, þ.e. fyrir fólk sem væri nýkomið frá útlöndum, væru ekki stundaðar í bæ Guðjóns Þórðarsonar. Þau hefðu ekki mannafla til þess.
Það er ný reynsla fyrir mig að hlusta á íslenskt morgunútvarp og mér þótti gaman að heyra lagið Kótelettukarl með Bjartmari Guðlaugssyni. Hvorki lagið né tónlistarmaðurinn hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en að heyra þennan söng aftur í íslensku útvarpi þótti mér uppörvandi reynsla. Mér fannst ég allt í einu kannast við fortíð mína. Í Danmörku á ég enga fortíð og þegar ég heyri danska kunningja mína tala um fyrri tíð tengi ég alls ekki.
Þegar ég losna úr sóttkví og ég keyri inn í Reykjavík hef ég hugsað mér að koma við í bókabúð og kaupa þær tvær bækur sem út er komnar á íslensku eftir Peter Handke, hinn umdeilda Nóbelsverðlaunahafa. Eins langar mig að kaupa bók Daniels Kharms, Gamlar konur detta út um glugga, sem Óskar Árni og Áslaug Agnarsdóttir hafa þýtt. Ég er ekki viss um að sú bók höfði til mín. Stundum finnst mér Kharms áhugaverður en ekki alltaf.
ps. Ég svaf óvenjuvel í nótt. Að vísu vaknaði ég rétt upp úr þrjú því mér datt í hug mitt í draumum mínum að ég þyrfti að kanna hvort ferfætlingar væru á ferli fyrir utan gluggann minn. Mig langaði að sjá kindur. Nóttin var tunglbjört og ég stóð nokkra stund við gluggann en engan ferfætling var að sjá svo ég fór aftur að sofa.