Í gærkvöldi barst mér tilkynning um að ég væri laus úr sóttkví þar sem ég hef nú verið skimaður tvisvar sinnum og í hvorugt skipti fannst kórónaveiran í mínum langa kroppi. Ég hef hugsað mér að halda upp á það með því að keyra til Akraness og kaupa í matinn. Mig vantar brauð og ost og sennilega væri ekki vitlaust að kaupa eitthvað til að elda kvöldmat þótt mér finnist kannski of mikill tími fara í að elda fyrir einn.
Kannski kíki ég líka inn í bókabúðina á Akranesi til að sjá hvað þau hafa upp á að bjóða. Það væri upplyftandi ef ég fyndi bækur Peters Handke hjá þeim? (Nú velti ég fyrir mér hvort ég eigi að setja eignarfalls essið á fyrri lið, seinni lið eða báða liði nafns Peters Handke, Peter Handkes, Peters Handkes.) Og svo er það bók Marilynne Robinson, Heima sem mig vantar líka. (Ég vona að Ugla gefi líka út nýju bókina hennar Marilynne, Jack.) Báðir þessir höfundar koma út hjá Uglu, bókaforlagi Jakobs Ásgeirssonar. Mjög gott fyrir mig því mig langar að lesa báða þessa höfunda í íslenskri þýðingu. Ég þarf á því að halda að lesa góða íslensku. Ég hef lesið þýðingar Karls Sigurbjörnssonar á tveimur öðrum bókum Marilynne Robinson og þær eru afbragð. Árni Óskarsson hefur þýtt Peter Handke og það tryggir framúrskarandi íslenskan texta.
Það er mánudagur og þar með hefst hin svokallað kynningarvika fyrir bókina sem ég skrifaði í vetur og nokkur viðtöl við íslenska fjölmiðla bíða mín. Allt eru þetta viðtöl sem ég hef sjálfur skrapað saman, en nú í einsemd minni hér í Hvalfirði fór ég að velta fyrir mér hvers vegna eiginlega ég væri að troða mér í fjölmiðla. Ég hef enga ánægju af því en hef talið mér trú um að það gagnist bókinni minni. Jú, kannski rata fleiri eintök af þessari sögu í hendur lesenda, sennilega vita fleiri af bókinni ef ég fer í viðtöl og myndir af hinum nefstóra útlaga birtast í blöðunum og ef til vill koma fleiri krónur í kassa skrifverkstæðisins; einhvers konar uppskera erfiðisins. En er það þetta sem ég hef áhuga á hef ég spurt mig. Ég hef fengið hálfloðin svör frá sjálfum mér. Þótt ég hafi ekki getað svarað á afgerandi hátt þá hallast ég æ meira að því að ég eigi bara að skrifa fyrir sjálfan mig, vanda mig eins og ég get, og svo getur heimurinn sjálfur komist að niðurstöðu um hvort þessi vinna sé einhvers virði. Það er ekki mitt verk að telja heiminum trú um það.
Ég er farinn að hlakka til að hitta fólk aftur. Bæði fjölskylduna mína og vini mína. Ég á marga góða vini hér á Íslandi og ég hlakka til að hitta þá og tala við þá. Ég á að vísu bara eitt fastbókað viðtal og það er við Jón Karl en það er líka aldeilis mikilvægt samtal. Hann þekkir mig svo vel eftir langa og nána samvinnu og hefur þroskað með sér þá samúð og hluttekningu að hann getur umborið alla mína veikleika og allt mitt villuráf.