Hvalfjörður. Athvarf neyðar minnar

Gærdagurinn byrjaði kannski ekki eins og ég hafði óskað. Allt í einu þegar ég fór á fætur varð ég svo móðlaus hér í einsemdinni. „Ó, hvar er athvarf á degi neyðar minnar,“ sagði ég. Nei, það sagði ég ekki, svo dramatískur er ég ekki. Yo! En kraftleysið strax frá fyrstu mínútum morgunsins varð til þess ég settist bara í stól, horfði yfir fjörðinn og las í bók fram yfir hádegi. Skrifaði ekki staf.

En nú er aftur morgunn, annar morgunn. Mér tókst ekki að sofa lengur en til klukkan hálf fimm og var kominn í sturtu fyrir klukkan fimm. Ég á fyrir höndum tvö viðtöl í dag, tvö löng viðtöl. Fyrst við þann góða mann Þröst Helgason og það er tæplega klukkutíma samtal í útvarpi. Úff, hugsaði ég, á ég að tala látlaust í sextíu mínútur! Svo langur er taltími minn ekki einu sinni á heilum degi. En Þröstur sendi mér spurningar í gær, eða svona hugmyndir að því sem hann langaði að ég talaði um. Ég fór að móta svörin í huga mér í gærkvöldi og það var kannski ekki góð hugmynd að fara velta þessu svo ákaft fyrir sér rétt áður en lagst er til svefns því svörin grautuðust í nótt saman við draumana og svefninn og vökuna og þessari hugarþoku létti ekki fyrr en ég ákvað að fara á fætur löngu fyrir dögun.

Svona er nú sálarlífið hjá þessum langa bókarhöfundi klukkan sjö að morgni. Ég hef borðað morgunmat og sett tónlist á fóninn. Og eftir klukkutíma þeysi ég á lánsbifreiðinni (Mazda-bíll) inn í hið mikla pestarbæli Reykjavík. Sem betur fer bíður mín þar Jón Karl Helgason, ég segi ekki athvarf neyðar minnar, en ég hlakka til að fara yfir stöðuna með honum.

En svo á ég líka stefnumót við blaðamann Morgunblaðsins síðar í dag. Blaðamaðurinn heitir Orri. Hann þekki ég ekki, og hef held ég aldrei hitt hann, en hann ætlar að koma hingað í Hvalfjörðinn og spjalla. Ég hef átt vinsamleg samskipti við manninn á tölvupósti og það sérkennilega er að ég hef enga mynd af honum í huganum en ég er samt sannfærður um að Orri sé rauðhærður og fölur á húð. Ég hlakka til að hitta Orra í dag og gaman að sjá hvort tilfinning mín fyrir hárlit mannsins er rétt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.