Hvalfjörður. Dagurinn runninn upp

„Jæja, Snæi minn, þá er dagurinn runninn upp. Sjálfur útgáfudagur bókarinnar þinnar. Til hamingju,“ sagði ég með rámum rómi þegar ég vaknaði og hafði legið dálitla stund í myrkrinu og áttað mig á stað og stund. Ég finn að ég er ánægður að hafa náð þessum áfanga og þessum kaflaskilum. Nú lýkur formlega sköpunarferli bókarinnar, við tekur kynningin og biðin eftir viðbrögðunum (mon dieu!). Ég man að ég varð dálítið niðurbeygður í fyrra eftir að fyrsta bókin kom út, varð fyrir einhverju spennufalli sem er víst þekkt á meðal þeirra sem skrifa bækur. Bókin kemur út og allir eru glaðir og svo … er eins og ekkert hafi gerst og engin bók hafi verið skrifuð …

En nú er ég orðinn árinu eldri og ég vonast til að gleðjast bara yfir eigin árangri, að hafa þó tekist að skrifa bók sem ég er ánægður með. Verkið í sjálfu sér, að hafa skrifað bók, er nóg fyrir mig. Þannig verður þetta bókahaust.

Annars fékk ég þær fréttir að strax í dag, og í tilefni dagsins, sé bókarkynning í einum af skólum vesturbæjar Reykjavíkur. Það er að eigin frumkvæði sem Agla Söndrudóttir heldur bekkjarkynningu á Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf. Kynningin var undirbúin í gær og hefst á orðunum: „Ég er fyrsta stelpan í heiminum sem les þessa bók … og endar á orðunum: Ég gef bókinni fimm stjörnur af fimm mögulegum.“

Að gleðja Öglu svona með bókaskrifum er eitt og sér réttlæting á vetrarstarfi mínu.

Fyrsti lesandi bókarinnar.

Í dag fer ég svo til Reykjavíkur að ná í 24 eintök af bókinni. Ég hef ekki enn séð bókina. Eintökin bíða mín í afgreiðslu Forlagsins klukkan 14:00 er mér sagt. Svo ætlar Kolbrún hjá Fréttablaðinu að tala við mig í dag um bókina. Ljósmyndari verður á staðnum svo ég er bæði vel rakaður og með greitt til hliðar svo mamma mín hefði verið ánægð með mig. Og í kvöld bjóða forseti lýðveldisins, forsætis- og menntamálaráðherra til hátíðarkvöldverðar vegna útkomu bókarinnar í Ráðherrabústaðnum. Heiðursgestur kvöldsins er barnabókahöfundurinn JK Rowling. Það þykja víst svona rosaleg tíðindi þegar maður gefur út bók, ;). Yo!

Og í gær bárust mér þau góðu fréttir að loks verði gefin út hljóðbókarútgáfa af Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins og lesari verður engin önnur en hin sjarmerandi lesari Margrét Örnólfsdóttir. Maður er aldeilis á uppleið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.