Í gær tók ég þá skynsamlegu ákvörðun að taka lífinu með ró, lesa, taka á móti gestum og redda hlutum sem þurfti að redda. Hingað komu Sölvi og Ingibjörg, Jón Kalman og Sigríður Hagalín (í mýflugumynd). Ég hugsaði oft með mér; þetta er góður dagur.
ps. las megnið af bókinni sem mig hefur svo lengi langað að lesa; Óskabarn ógæfunnar, Peter Handke. Ég náði ekki alveg stilla mig inn á hana. Ég hafði í rauninni haldið að bókin væri aðeins öðruvísi og maður ætti eftir að fá mynd af mömmu skáldsins sem bókin fjallar um. En maður kynnist konunni harla lítið.
ps Ég rakst á frétt í mbl.is – þar sem Davíð Oddson, leikskáldið og smásagnahöfundurinn ræður ríkjum – um að nýr bæklingur um kökur hafi komið út hjá Nóa og Síríusi. Þetta eru sannarlega góð tíðindi, hugsaði ég með mér og á örugglega eftir að gleðja marga sælkera og áhugamenn um kökubakstur. En á sama tíma furðaði ég mig á því að ekki þyki það lengur tíðindi að Ófeigur Sigurðsson, ég nefni þennan höfund bara sem dæmi, hafi gefið út glóðvolgt smásagnasafn, nýbakað og ilmandi. Davíð og ritstjórar blaðsins (MBL.) láta eins og þessi bók hans Ófeigs (ég tek hann bara sem dæmi) hafi alls ekki komið út. Mér, persónulega, finnst ekki sæta minni tíðindum að smásagnasafn Ófeigs hafi ratað í bókaverslanir en að þeir Nói og Síríus hafi hrært í kynningarbækling um kökubakstur og dreifi honum á sölustöðum súkkulaðis þeirra Nóa og Síríusar. Ég læt mynd fylgja.
