Hvalfjörður. Kyrr kjör

Vinnudagur í dag eftir að hafa sinnt stússi síðustu daga; ég er til dæmis kominn með rafrænt skilríki. Jón Karl er sestur hérna hjá mér og nú sitjum við bak í bak eins og við gerðum niður á Bjarti forðum og vinnum í skapandi þögn. Nú er runninn upp næstsíðasti dagur á landinu. Ég flýg eldsnemma á miðvikudagsmorgun til Kaupmannahafnar en með millilendingu í Amsterdam; þetta verður langur ferðadagur.

Dvölin á Íslandi hefur verið eins og best verður á kostið. Ég hef náð að hitta fjölmiðlafólk og verið í sviðsljósinu til að kynna bókina (eins og til stóð). Nú á ég bara eftir að hitta Egil Helgason í Kiljunni, (af einhverju ástæðum er ég farinn að efast um að af því verði, það er eitthvað svo hljótt um þessar sjónvarpsupptökur). Svo hafa krakkarnir mínir verið hér í sveitinni í heimsókn yfir helgina og ég hef náð að hitta nokkra af vinum mínum í ferðinni. Ég hef sem sagt náð því sem ég dreymdi um og ætlaði mér.

Svo hef ég getað unnið, komist áfram i eigin skrifum og afköstin hafa verið með besta móti. Líka lesið : Handke, Gyrði, Marilynne Robinson, Smásögur heimsins (Evrópa) og í nýrrri bók Jóns Karls Helgasonar, Sögusagnir.

Allt er með kyrrum kjörum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.