Hvalfjörður. Dagur hinnar löngu biðar.

Þetta hefur verið furðulegur dagur í dag. Ég er að bíða, ég er bara að bíða, hugsaði ég. Og satt að segja hef ég verið eirðarlaus og hálffriðlaus í dag. Ég þurfti að keyra til Reykjavíkur í morgun. Agla hafði verið hér hjá mér og við höfum haft það notalegt; horfðum á Kalla og sælgætisgerðina upp í rúmi í gærkvöldi en klukkan tíu slökktum við svo Agla fengi kvöldsvefn og í morgun tókum um upp fyrri iðju (að horfa á kvikmyndina) þegar við höfðum fengið okkur morgunmat. Síðan keyrði ég Öglu í bæinn og sjálfur fór ég í víruspróf til að þurfa ekki að fara í 14 daga einangrun í Danmörku þegar ég kem heim.

Síðan afhenti ég Kalman bókina sem ég hafði lofað honum, drakk með honum kaffi og spjallaði í klukkutíma áður en ég keyrði aftur upp í sveitina.

Á morgun verður ferðalagið langt, meira en 16 tímar; gegnum Amsterdam og til Kaupmannahafnar. En biðtíminn í Amsterdam verður töluvert langur og ég hef fengið ráðgjöf um hvaða kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir ég eigi að hlaða niður. Ég er búinn að því. Ég er búinn að velja þrjár bækur til að hlusta á; Bók Guðrúnar Evu, Texas ástin mín, bók Arnaldar Indriðasonar, Patsamo og bók Gyrðis Elíassonar, Gula húsið. Ég hef áður lesið bæði bók Guðrúnar Evu og Gyrðis en mér finnst allt í lagi að hlusta á þær aftur. Gyrðir les sjálfur og hann er mjög góður lesari eigin bóka.

Eftir að ég kom heim aftur úr bæjarferðinni upp úr hádegi hef ég eiginlega ráfað um. Verið eirðarlaus og furðulegur. Ég sakna míns fólks í Danmörku og ég er leiður yfir að fara héðan frá Hvalfirði. Ég hef ráfað um húsið með bók Arnaldar í eyrunum og skipt á rúmfötum þar sem börnin mín hafa sofið. Ég hef þvegið þvotta og fengið mér ristað brauð. En alltaf er ég að bíða.

Í fyrsta lagi hef ég verið að bíða eftir kalli Egils Helgasonar sem hafði sagst ætla að tala við mig fyrir Kiljuna og í dag eru síðustu forvöð. Nú þegar ég skrifa þessi orð er það orðið of seint. Ég er að bíða eftir að niðurstöður veiruprófsins berist. Ég reikna alls ekki með að vera veikur – og það væri auðvitað ferlegt ef ég væri veikur og þyrfti að aflýsa flugi. Og ég er eiginlega líka að bíða eftir að keyra til Keflavíkur því flugið er eldsnemma í fyrramálið og ég þarf að keyra héðan um miðja nótt.

Í eirðarleysi mínu og ráfi með þvottakörfur og sængurföt varð mér hugsað til samveru okkar Jóns Karls í gær og þeirrar gleði sem ég hafði af samveru okkar; hinni þöglu vinnusamveru (eins og í gamla daga) og langa göngutúrnum þar sem við fórum yfir það helsta sem hringsnýst í huga okkar. Ég vildi að ég hefði samskonar félaga í Danmörku og ég á hér á Íslandi.

ps Í gær skrifaði til mín kona og var eiginlega að biðja mig um að aðstoða hana með barnabók sem hún hafði skrifað. Hún notaði messenger-kerfið. Ég er því miður frekar óvanur því kerfi þar sem ég er ekki hinn mikli facebook-maður. Þegar ég ætlaði að svara henni (nafn hennar man ég ekki) fann ég messenger-þráðinn ekki aftur (hann var satt að segja alveg horfinn) og nú get ég bara ekki skrifað konunni. Og það finnst mér mjög leiðinlegt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.