Það er víst ekkert vafamál að vírusfárið fer ekki bara illa með efnahag þjóða og einstaklinga, fárið kæfir líka alla andagift, drift og atorku. Ég finn það greinilega á sjálfum mér. Allt er undir kæfandi teppi og nú er að finna leið til að brjótast undan þessu oki.
Ég sá að bókabúð Máls og menningar er endanlega lokað og kemur það svo sem engum á óvart. Í staðinn opnar skemmtistaðurinn Bókabúð máls og menningar. Það var svolítið uppörvandi að eftir að ég var í útvarpsviðtali hjá hinum góða manni Þresti Helgasyni til að spjalla um bókaútgáfu, bókaskrif og stöðu bókarinnar fóru mér að berast skilaboð frá nokkrum einstaklingum (hverjum fyrir sig) hvort ég hefði áhuga á að ræða við þá (einstaklingana no. ft.) um hvort ég hefði áhuga á að vera með í að kanna hvort grundvöllur væri fyrir opnun nýrrar bókabúðar og þá með alveg nýju sniði. Það er auðvitað áhugavert en þar sem ég bý í útlöndum er erfitt fyrir mig að vera virkur þátttakandi í slíku starfi.