Espergærde. Að setja sjálfan sig í sviðsljósið

Á göngu minni til hestanna í gær urðu óvænt nokkrir kunningjar á vegi mínum. Ég held að ég sé farinn að sjá eitthvað óskýrt ef hlutir eru mjög fjarri – ég er líka næstum nærblindur – að minnsta kosti þekkti ég ekki manninn sem gekk á sama vegi og ég fyrr en ég var alveg kominn upp að honum. Hann gekk með derhúfu í stíl við skóna hans; hvítt, blátt og rautt eins og í franska fánanum og bar undir handleggnum fjölrituð blöð, A4, og setti í póstkassa húsanna á veginum.
„Hvað ertu að bera út?“ spurði ég manninn sem virtist hálfuppgefinn bæði á líkama og sál.
„Ég er að bjóða alls konar þjónustu,“ hann rétti mér blaðið, ansi textaþungt blað, þar sem tíunduð voru verkefni sem hann gæti leyst vel og fljótt af hendi. Í niðurlagi bréfsins var langt mál um hæfni hans, afköst og önnur góð verk sem hann hefði tekið að sér og skilað framúrskarandi verki.

Hann fylgdist með mér lesa blaðið eins og hann biði eftir viðbrögðum og þegar ég sagði ekkert strax heldur rétti honum blaðið sagði hann mér að hann væri orðinn atvinnulaus og nokkuð örvæntingarfullur. „Ég dreifi þessu montblaði en ég kann alls ekki við að hæla sjálfum mér,“ sagði hann og benti afsakandi á blaðið.
„Þú ert ekki að ljúga neinu,“ sagði ég og reyndi að vera uppörvandi.

Ég segi frá þessum stutta fundi hér því ég rakst á grein í dagblaði eftir fræga, danska skáldkonu sem sagði frá glímu sinni við instagram-miðilinn. Hún, eins og fleiri, notar Instagram til að leyfa áhangendum sínum að fylgjast með vinnu hennar við að skrifa nýja bók, sýnir sjálfa sig tala við réttarmeinafræðinga, lögreglumenn og hjúkrunarfólk (hún skrifar glæpasögur) og hún leyfir Instagram-fylgjendum sínum að heyra af viðbrögðum lesenda og fjölmiðla við bókum sínum. PR og markaðssetning á nýjum bókum hefur æ meir flust yfir til samfélagsmiðlana. Á facebook og instagram er uppslögum deilt og forsíður bóka sýndar aftur og aftur. „Hér er bókin, þetta er kápan, baksíða, sjáið strætóauglýsinguna, nú er bókin númer eitt á metsölulistanum, fjórar stjörnur … “

Sjálfur er ég á Instagram og ég sé stundum þegar rithöfundar flagga eigin bókum og vina sinna. Til dæmis virðist nú vera einskonar herferð fyrir bók Kristínar Svövu Tómasdóttur sem er ljóðabók sem fjallar um dugnað kvenna, sérstaklega ljósmæðra og sængurkvenna, í gegnum aldirnar. Vinkonur hennar Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir deila hrifningu sinni á bókinni aftur og aftur. Svona geta höfundar hjálpast að. Ég veit ekki hvort þetta vekur áhuga á bókinni, svo kann vel að vera. Andri Snær og Hallgrímur Helgason eru líka duglegir við að kynna eigin verk á Instagram og á hverjum degi koma margvísleg ný myndefni um verk þeirra og vinnu.

Þessi glæpasagnadrottning sem segir frá í greininni og ég las um í dagblaðinu fékk fyrir nokkru athugasemd frá einum af fylgjendum sínum sem hljóðaði svo: „Verður þú aldrei leið á því að hæla sjálfri þér og gorta af verkum þínum? Það er eiginlega óþolandi að verða vitni að þessu!“ Þetta var eins og að fá kalda og slepjulega tusku í andlitið fannst þessum vinsæla rithöfundi. Hún velti fyrir sér að hætta á Instagram en varð að horfast í augu við að þetta var mikilvægur hluti af markaðssetningu bóka hennar. Ef hún stundaði ekki instagram-sýninguna mundu bækur hennar kannski ekki seljast eins vel.

Sjálfur hef ég, með hálfgert óbragð í munninum, sett slíkt sjálfshól á Instagram síðu mína og talið mér trú um að ég sé að standa með bókinni minni. Æ, ég veit það ekki. Mér finnst þetta allt hálf aumkunarvert ef ég á sjálfur í hlut.

dagbók

2 athugasemdir við “Espergærde. Að setja sjálfan sig í sviðsljósið

    • Kæra Ragnhildur. Þakka þér fyrir skilaboðin. Ég skil víst ekki alveg hvað þú átt við. En ef þú heldur að ég sé að setja út á einhvern þá hefur þú misskilið mig. Ég er bara að segja frá vandanum við t.d. að kynna bækur sínar, eða verk sín – eins og maðurinn sem þurfti að bera út A4 fjölrit – á tímum samfélagsmiðla þar sem sjálfshól er það tæki sem er tiltækt. Það hentar ekki öllum að hæla sjálfum sér. Ég er ekki að setja út á þá höfunda sem nýta sér þetta tól heldur benda á þá sem eru duglegir að nota það. Og það er ekkert rangt við það. Mér sjálfum finnst það bara erfitt. Því átti ég sem sagt erfitt með að skilja tóninn í kveðju þinni. Snæbjörn

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.