Espergærde. Við verðum að elska hvert annað ellegar deyja

Hún kom mér gersamlega í opna skjöldu konan sem kom hlaupandi á móti mér gaf mér skyndilega það sem kallað er high five. Ég hafði sjálfur á hlaupum mínum verið niðursokkinn í hljóðbók sem ég hef í eyrunum þegar ég skokka eftir Strandvejen (Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur). Unga konan var ljóshærð, hljóp hratt og elegant (því hafði ég tekið eftir) með kirkjugarðssteinhleðsluna á aðra hönd en umferðina á Strandvejen á hina. Ég hafði líka tekið eftir að hún hafði grænar grifflur á höndunum eins og persóna í Charles Dickens-sögu. Lófar okkar snertust eitt andartak í þessari high-five kveðju og á sama augnabliki mættust augu okkar. Hún hafði brún, lífleg augu og það var bros í þeim.

Inni á sjálfum kirkjugarðinum stóðu þrír verkamenn yfir nýrri gröf – þar lágu fjölmargir ferskir blómvendir – og fylgdust áhugasamir með þessari stuttu kveðju hlauparanna sem mættust. Það færðist bros yfir andlit þeirra og einn þeirra setti þumalfingurinn upp í loftið eins og ég hefði afrekað eitthvað. „Við verðum að elska hvert annað ellegar deyja,“ hugsaði ég.

„Áttu erfitt með að þola nasty skilaboð, illviljað umtal eða neikvæðni?“ spurði hálfókunnur maður mig í bréfi sem ég fékk í gær. Hann hafði reynt að komast inn á dagbókina mína, Kaktusinn, en ekki tekist það, enda hefur hún verið lokuð umferð. Hann hafði spurt hverju það sætti að síðan væri honum lokuð og ég hafði svarað eins og ég hef svarað öðrum sem hafa spurt.

Öll skilaboð og bréf sem ég fæ eru nær undantekningarlaust falleg, full af kærleika, ást og lestur þeirra veitir mér mikla gleði. En það kemur líka fyrir að ég fæ sérkennilegar og neikvæðar athugasemdir. Venjulega, ekki alltaf, hef ég gaman af þeim, finnst þær undarlega hressandi. Ekkert jafnast á við góða móðgun að morgni. Það fær hjartað til að slá. Slík skilaboð eru einskonar viðurkenning á maður hafi eitthvað að segja, að skoðanir manns skipti máli. Sá sem skrifar opinberlega og lætur í ljós skoðanir sínar verður að fá slíka kinnhesta af og til sem staðfestingu á að hann vinni vinnuna sína.

Það finnast háværar, neikvæðar raddir sem magnast og styrkjast á félagsmiðlunum – þessari skelfilegu túrbínu bræði og innilokaðrar reiði – en slíkar raddir eru ekki raddir fjöldans heldur tilheyra litlum, lokuðum hópi sem lifir og hrærist inni í sinni litlu bólu vonbrigða og andúðar. Á ferðum mínu í gegnum lífið – og hef ég farið víða og verið lengi á ferðinni – mæti ég nánast eingöngu velvilja, vinsemd og uppörvandi jákvæðni. Fólk er kærleiksríkt, virðir mann eins og maður er – hinn hrasandi maður – og er sjálft virðingarvert. Fólk er nær án undantekninga örlátt og ástríkt.

Tilvera okkar er háð því að við sýnum öðrum okkar bestu hliðar. Virkjum sköpunarmátt okkar og sköpunargleði. Neikvæðni, hundingsháttur, tortryggni og fjandskapur er ekki leiðin áfram. Við verðum að elska hvert annað ellegar deyja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.