Espergærde. Eintal við heiminn.

Hér er haust og gulu laufin á trjánum falla óaflátanlega á jörðina svo bæði gangstéttar og vegir eru þaktir rotnandi laufblöðum. Þetta sé ég þegar ég geng mína daglegu göngutúra, eða hleyp mín langhlaup; allar mínar brautir eru þaktar laufi. Þetta er víst hluti af hringrás náttúrunnar.

Síðustu daga hef ég rekist á unga konu, unga, síðhærða konu með vinnuhanska og klædda í regnkápu, sem rakar saman lauf, bæði af götunni fyrir framan húsið hennar, af gangstéttinni og úr trjábeðum meðfram götunni. Laufblöðunum safnar hún saman og mokar í rauðar hjólbörur með gulu dekki. Að þessu verkefni konunnar hef ég orðið vitni í marga daga í röð og ég get ekki leynt undrun minni í hvert sinn sem ég rekst á þessa duglegu konu. Hún brosir alltaf fallega til mín þegar leiðir okkar liggja saman. Mig langar að taka mynd af henni við hliðina á fínu hjólbörunum með gula dekkinu en það leyfi ég mér ekki. Hvert er erindi hennar, hvað vill hún með þessu tilgangslausa starfi, hugsa ég. Er þetta hennar eintal við heiminn. Eða get ég ekki leyft mér – ekki frekar en að taka ljósmynd – að segja að starf hennar sé tilgangslaust. Henni finnst hún fegra umhverfi sitt að minnsta kosti þangað til laufin hafa enn á ný náð að þekja nýhreinsaða gagnstéttina fyrir utan húsið hennar.

Ég segi frá þessu hér þar sem ég fékk bréf í gær frá ritstjóra mínum hjá bókaforlaginu Forlaginu. Hún er góð við mig. Ég er svo heppinn að hafa uppörvandi ritstjóra sem sýnir mér hvað eftir annað að henni finnst samstarf okkar skipta máli. Í gær sagði hún mér að á Íslandi hafi enn enginn ritdómur birst um bókina mína sem kom út í byrjun október og það fannst henni „hundfúlt“. Og þá fór ég að hugsa um laufblaðasöfnun ungu konunnar með síða hárið. Hennar eintal við heiminn og mitt eintal við heiminn. Var hennar starf eitthvað tilgangslausara en mín góðu bókaskrif sem virðist svo sannarlega vera eintal við heiminn þótt mér finnist ég eigi erindi við svo marga. Yo!

ps. ég eyddi öllum áskrifendum að Kaktusnum um daginn. Ég bjóst ekki við að ég myndi skrifa kaktusfærslu aftur og fannst ekki rétt að vera að geyma tölvupóstfang alls þessa fólks. Ég biðst afsökunar á þessu upphlaupi mínu. Allir eru auðvitað velkomnir að skrá tölvupóstfang sitt og fá þessi skrif mín í tölvupósti. En þá þarf maður víst að skrá sig aftur því ég hef eytt öllum tölvupóstföngunum. Sorry.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.