Espergærde. Hjá sálfræðingnum

Ég ákvað að halda snemma af stað út í morguninn þótt enn væri bæði dimmt og regnið félli af ægilegum krafti niður af himninum. Mér er alveg sama um regnið, mér finnst ekkert verra þó að ég vökni. Í stað þess að halda út á akrana þar sem öruggt er að ég mæti hvorki bíl né fótgangangandi manneskju gekk ég í þveröfuga átt. Ég fór nefnilega að velta fyrir mér hvernig hestarnir hefðu það í regninu. Meðferðis hafði ég tekið gamlar hveitibollur sem ég hafði hugsað mér að lokka hestana með.

Ég var auðvitað holdvotur strax og ég hafði gengið fáeina metra enda hvorki með regnhlíf eða í regnfötum. Nágranni minn, háværi maðurinn sem býr aðeins neðar í götunni, kallaði til mín um leið og hann opnaði dyrnar á bílnum sínum og spurði hvort ég vildi far. Sjálfur hímdi hann undir regnhlíf sem hann hafði spennt upp fyrir þessa fáeinu metra frá útidyrunum á húsinu hans og að bílnum sem stóð grafkyrr í innkeyrslunni.
„Nei, nei, þakka þér fyrir,“ sagði ég og kinkaði kolli til að sýna þakklæti mitt fyrir hugulsemina. „Ég ætla bara að kíkja á hestana,“ bætti ég við til skýringar þótt ég vissi fullvel að hann hafði ekki hugmynd um hvaða hesta ég var að tala um.
„OK!“ sagði hann og horfði á mig og ég sá ekki betur en það væri vorkunn í augum hans.

Hann þarf ekki að vorkenna mér, hugsaði ég og gekk ótrauður út í rigningarþokuna. Mér finnst lyktin af regni góð og ég fæ á tilfinninguna að ég sé svolítill kappi að ösla hiklaust í genum regnið. Á götunum voru djúpir pollar – ég sneiddi hjá þeim – og straumharðir lækir runnu eftir rennusteinunum niður göturnar. Leiðin til hestanna er nokkuð drjúg, að minnsta kosti fimm kílómetrar og gangan til þeirra tekur tæpan klukkutíma. Í eyrunum, í nýfengnum AirPods, hljómaði rödd Hildar Knútsdóttur lesa sögu sína um Vetrarfríið þegar Ísland fékk heimsókn frá geimverum. Að vísu missti ég þráðinn í miðjum lestrinum því ég fór að hugsa um samtal mitt við tilvistarsálfræðinginn sem ég hitti í síðustu viku. Ég vona að það móðgi engan þó að reynsla síðustu viku skyldi taka athygli mína frá bókinni.

Ég hafði lesið viðtal við sálfræðinginn í dagblaði. Hann er gamall maður – rúmlega áttræður – og hafði fyrir nokkru skrifað bók um fag sitt tilvistarsálfræðina. Mér þótti það svo áhugavert að ég ákvað að reyna að hitta manninn. Í ljós kom þegar ég hafði samband við hann að ómögulegt var að komast að hjá honum; hann var bókaður mörg ár fram í tímann. Ég varð auðvitað fyrir vonbrigðum að fá ekki tækifæri til að spjallað við manninn um tilvist mína og tilvist mannanna. En ég þakkaði honum kurteislega fyrir svarið og átti ekki von á að heyra í honum aftur. En af einhverjum ástæðum ákvað hann samt að sýna mér mildi sína og hafði aftur samband við mig og sagðist vilja gefa mér viðtalsbil. Og það var í síðustu viku.

Ég var auðvitað spenntur að hitta manninn. Aldrei fyrr hef ég verið á bekk sálfræðings og dagana á undan velti ég því af og til fyrir mér hvert umræðuefni okkar ætti að vera; og það var margt sem kom í huga mér. Það var ekki skortur á samtalsefni, hugsaði ég.

Sálfræðingurinn reyndist lítill maður vexti og spengilegur; enda kom í ljós að hann hljóp daglega nokkra kílómetra og stundaði einhverja japanska bardagalist sem ég þekkti ekki. Hann var vingjarnlegur og brosmildur.
„Jæja,“ sagði hann. „Vertu velkominn og gaman að fá þig hingað. Ég hef aldrei fyrr haft Íslending á bekknum. Þó þekki ég nokkra Íslendinga; Möggu og Helga. Sonur þeirra er Hallgrímur og er þekktur rithöfundur. En ekki ætlum við að tala um þau. Viltu segja mér svolítið frá þér og hvernig staðan er í dag; hvernig er lífið hjá þér núna?“ Svona hófst samtal okkar sálfræðingsins.

Við komumst ekki langt með stöðu lífs míns. Ég var rétt búinn að draga upp grófa mynd þegar klukkan á Ráðshústorginu hringdi (skrifstofan er rétt við Ráðhúsið) og viðtalsbilið var liðið. Hann vildi þó hitta mig aftur í næstu viku. Kannski verður sálin á mér eins og nýbónuð, glansandi og hrein, þegar samtölum okkar um tilvistina lýkur.

En ég náði alla leið til hestanna í regninu. En þeir höfðu ekki áhuga á hveitibollunum mínum; þeir héldu bara áfram að bíta gras þótt ég veifaði bollunum í átt til þeirra.

ps. Og bókin mín er dottinn út af metsölulistanum, út af vinsældarlistanum og ég sem stefndi á toppinn! Hverju ætli það sé að kenna að bókin sé ekki lengur meðal hinna vinsælustu? Ég skil það ekki og sjálf Gerður Kristný er líka dottinn af stallinum og er hvergi að sjá.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.