Espergærde. Laumureykingar í kvöldmyrkri

Í gærkvöldi þegar ég gekk út úr tennissalnum og út í kvöldmyrkrið tók ég eftir manni í síðum frakka með gleraugu sem hallaði sér upp að bárujárnsvegginn við innganginn og reykti sígarettu. Tennishöllin stendur í útjaðri bæjarins nokkuð úr alfaraleið og þangað leggur enginn leið sína nema maður eigi erindi sem tengist á einhvern hátt tennisíþróttinni. Þetta var því undarlegur staður til að standa og reykja í myrkrinu nema að maðurinn væri að bíða eftir einhverjum sem þetta kvöld hefði stundað tennisíþróttina inni í tennishöllinni. En ég vissi að ég var síðasti maður til að yfirgefa bygginguna og því var enginn lengur inn í tennissalnum. Ef maðurinn með sígarettuna var að bíða eftir einhverjum sem hann ætlaði að ætti að vera inni í byggingunni þá mundi hann þurfa að bíða alla nóttina.
„Ertu að bíða eftir einhverjum?“ spurði ég og hafði í huga að benda honum á að allir væru farnir og bið hans mundi verða löng ef ég segði ekkert.
„Já … eru allir farnir?“ spurði hann með rámri röddu. Ég tók eftir að hann var afar þunnhærður en hann reyndi samt með hárgreiðslu og sennilega einhverjum sérþróuðum hársnyrtivörum að hylja að hárin á höfðinu á honum voru allt of fá miðað við stærð höfuðsins.
„Já, ég var síðastur út,“ sagði ég.
„Allt í lagi …“ Hann hugsaði sig um og tók af sér gleraugun sem voru með hvítri umgjörð og lýstu í myrkrinu. Kannski sæi hann mig betur án gleraugna, hugsað ég. En svo bætti hann við eins og til að ljúka samtalinu. „Ég stend bara hérna í skjólinu og klára sígarettuna. Gott kvöld,“ sagði hann og leit niður fyrir sig um leið og hann fékk sér nýjan smók af sígarettunni.
„Gott kvöld,“ sagði ég líka og hélt af stað upp eftir dauflýstum göngustígnum á milli útitennisvallanna sem alltaf eru svo sorglegir þegar búið er að taka niður tennisnetin fyrir veturinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.