Espergærde. Röddin

Ég man enn eftir nóvembermorgninum fyrir fjórum árum þegar Númi vakti mig með orðunum „ég held að Trump hafi unnið“. Númi hafði vakað yfir kosningasjónvarpinu þegar forsetakosningarnar fórum fram í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum. Ég man að ég var gersamlega miður mín þennan dag og fannst þessi sigur Trump vera ósigur fyrir mannkynið, ósigur hins ærlega fyrir hinu falska og óheiðarlega.

Nú eru fjögur ár liðin og ég er enn sannfærður um að ég hafi haft rétt fyrir mér að mannkynið og allt hið fagra og góða hefur orðið fyrir miklum skaða af sigri Trump. Það er mín skoðun.

Í gær var mér bent á afar vinsamlegan ritdóm sem birtist á vef Bókmenntaborgarinnar um bækurnar tvær sem ég hef skrifað. Ég varð eiginlega stoltur yfir að fá svona fína umsögn og gekk í kringum sjálfan mig í gær með þessa góðu tilfinningu í líkamanum og sálinni: að einhverjum þættu bækurnar mínar „virkilega vel skrifaðar, spennandi og grípandi“. Ég varð mjög glaður.

Ég er byrjaður að lesa SYKUR, bók Katrínar Júlíusdóttur, sem er glæpasagan sem vann glæpasagnaverðlaun Bjarts-Veraldar, eða Yrsu og Ragnars, í ár. Ég er mjög spenntur og áhugasamur að sjá hvaða kröfur vinningsnefndin gerir til vinningssögu. Síðustu vikur hef ég nefnilega haldið áfram að skrifa glæpasögu sem ég byrjaði á fyrir löngu en lagði á hilluna í marga mánuði. Ég reyni að gera mér grein fyrir hvort ég eigi möguleika á að vinna þessi verðlaun. En ég tók söguna aftur fram eftir langt hlé vegna þess að ég fann allt í einu röddina, söguröddina, sem ég vil nota og nú rembist ég við að halda tóninum út alla frásögnina. Það er ekki létt.

Allt í einu langaði mig svo að það væri meiri ástríða í bókmenntaumfjöllun, ég segi ekki á Íslandi, þótt þessi draumur minn beinist fyrst og fremst að Íslandi en ég meina samt í heiminum. Ég vildi að í gær hefði verið hrópað úti á götum Reykjavíkur, Akureyrar, Ísafjarðar, Neskaupsstaðar, Stokkseyrar í tilefni af nýja ritdómnum: „Frábær dómur, Snæi, sem þú fékkst í gær. Fleiri bækur, fleiri bækur, fleiri bækur …“ Bílar keyrðu um og flautuðu af fögnuði. Forlagið mitt mundi ærast yfir dómnum og starfsmenn söfnuðust saman í dansi og söng. Útvarp og sjónvarp tækju bókina fram til að fjalla um hana, Víðsjá, Kiljan, Lestin og hvað allir menningarþættirnir heita … ritdómar, umræðuþættir, viðtöl, bók dagsins, … allt yrði vitlaust … og þjóðin stæði á öndinni af spenningi yfir stöðu bókmenntanna og gæti ekki beðið með að rífa í sig nýju bækurnar.

Kannski verður þetta svona á morgun þegar þjóðin hefur lesið þetta ákall mitt. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.