Espergærde. Komi mjúk til mín miskunnin þín

Ég var hræddur um að hafa misreiknað mig eða jafnvel villst þegar ég gekk inn í kirkju á afviknum stað í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Ég hafði haldið mig vera á leið á tónleika þegar ég gekk inn um voldugar kirkjudyrnar. En mér til undrunar stóð ég allt í einu aleinn inn í gífurlega háu og breiðu kirkjuskipi, böðuðu furðulega bláu ljósi. Þar var engan að sjá, ekki lifandi sálu – kirkjudyrnar höfðu þó verið ólæstar – og við altarið logaði á þremur kertum. Ég leit bæði í kringum mig og á úrið. Klukkan var nákvæmlega sjö og ég vissi ekki betur en tónleikarnir ættu að vera haldnir klukkan hálfátta. En í kirkjunni voru engir tónleikagestir og tónlistarmaðurinn sem ég hafði hlakkað til að hlusta á flytja tónlist sína var víðsfjarri. Að hér ættu að vera tónleikar var augljós misskilningur hjá mér – og ekki í fyrsta skipti sem ég ruglast á stað og tíma. Kannski áttu tónleikarnir að vera árið 2023 eða kannski voru þeir haldnir árið 1999. En ég stóð inni í kirkjunni þann 5. nóvember 2020 klukkan 19:00 og hér yrðu engir tónleikar haldnir.

Ég staldraði við rétt fyrir innan kirkjudyrnar sem ég hafði lokað varlega á eftir mér en gekk svo hægt af stað inn kirkjugólfið í átt að altarinu. Frá bakherbergi heyrði ég ógreinilegan söng. Er þetta ekki „Hærra minn Guð til þín,“ hugsaði ég og sperrti eyrun en í sömu mund hætti söngurinn. Hurð opnaðist og út kom aldraður maður. Hann hélt á einhverju yfir arminn sem líktist fatahrúgu. Hann gekk hægt í átt að altarinu, staldraði við undir krossinum sem hékk hátt upp á veggnum, signdi sig, spennti greipar og laut höfði.

Mér fannst hálfóviðeigandi að standa þarna á miðju gólfinu undir þessari innilegu bænastund. Ég bærði ekki á mér og horfði á hnakkann á hinum biðjandi öldungi. Hann gaf sér góðan tíma í samtal sitt við Guð, ég heyrði lágt muldrið og án þess að velta því fyrir mér var ég sannfærður um að hann yrði bænheyrður. Að bæninni lokinni lyfti gamli maðurinn höfði og sneri sér að mér eins og hann hefði vitað af mér allan tímann. Hann leit á mig góðlegum augum, svipurinn var alvarlegur og eftir andartaks umhugsun gekk hann í átt til mín.
„Get ég gert eitthvað fyrir þig, vinur,“ sagði hann afar mildri og einlægri röddu. Þessi rödd er alveg laus við smjaður, hugsaði ég.
„Ég ætlaði að koma hingað til að hlusta á tónlist, ég hafði haldið að hér klukkan hálfátta væru tónleikar?“ sagði ég.
„Nei, hér eru ekki tónleikar í kvöld … En kórinn – kirkjukórinn okkar – kemur bráðum til að æfa sig. Hér starfar kórstjóri og hann hefur boðað til kóræfingar í kvöld. Þér er velkomið að hlusta … ef þér líkar sálmatónlist.“
„Þakka þér fyrir,“ sagði ég án þess að gefa til kynna hvort ég þæði þetta vinalega boð eða ekki.
Gamli maðurinn hneigði sig lítillega og skildi mig eftir einan í kirkjunni.

Ég settist á kirkjubekk og hugsaði mig um í skamma stund; ætti ég að þiggja boð gamla mannsins að hlusta á kóræfingu? Mér fannst það þó ekki nógu freistandi jafnvell þótt ég ætti að baki fjörutíu mínútna ökuferð og væri leiður yfir að hafa ekið svona langt og lengi í algjörri erindisleysu. Ég sat um stund, hugsaði um hvernig mér hefði tekist að klúðrað þessari tónleikaferð. Flöktið í kertalogunum á altarinu vakti athygli mína og textarnir sem höggnir voru í þykkan steinmúrinn við hlið altarins: „Verið góðviljuð hvort við annað, miskunnarsöm og fús til að fyrirgefa hvert öðru …“

Ég keyrði heim á leið. Í bílnum spilaði ég íslenskan sálmasöng á meðan ég geystist í norðurátt, aftur heim. Eiginlega valdi ég sálmasönginn í þakklætisskyni fyrir þær góðu móttökur sem gamli maðurinn í kirkjunni hafði veitt mér. Kvöldmyrkrið á hraðbrautinni í gegnum Sjáland er mjög dimmt, sérstaklega þegar rignir. „Komi mjúk til mín miskunnin þín …“ var sungið. Háu trén meðfram veginum líktust svörtum skuggum, risavöxnum varðmönnum sem höfðu það hlutverk að hleypa engri birtu í gegn.

ps. Ég kláraði að hlusta á Vetrarfrí eftir rithöfundinn Hildi Knútsdóttur. Ég held að þessi bók Hildar skari fram úr öllum þeim barna- og unglingabókum sem ég hef lesið að undanförnu (og ég hef lesið þó nokkrar (ég er að reyna að læra)). Þetta er þétt bók, hefur þessa réttu fyllingu sem texti þarf að hafa til að táldraga lesandann, vefja hann inn í söguna og taka hann með inn í sögulandið.

pps. Ég fékk líka sendan lestur Margrétar Örnólfsdóttur á Rannsókninni á leyndardómum eyðihússins. Bókin á víst að fara inn á Storytel innan skamms. Margrét Örnólfsdóttir er aldeilis frábær lesari. Hún les mjög fallega, allur hennar sjarmi skilar sér og ég er sérstaklega ánægður að hafa valið hana til að vera rödd Millu. Þar valdi ég rétt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.