Vikum saman hef ég tekið eftir stóru hlassi af einhverju sem líkist sagi – fíngerð trémylsna – sem hefur staðið í tveimur stórum hrúgum á horni eins akursins sem ég geng svo oft framhjá. Ég hef meira að segja staldrað við á göngu minni til að reyna að skilgreina hverju sé sturtað í þessa hrúgu í akurhornið. Ég hef ekki komist nær niðurstöðu en að halda að þetta sé sag. En í morgun dró til tíðinda. Þegar ég gekk inn á sandstíginn við akurinn sá ég í fjarska að tvær stórar dráttavélar (traktorar), ein með skóflu og hin með kerru, athafna sig í kringum hrúgurnar; traktorinn með skófluna mokaði saginu á kerru hins traktorsins. Hvað verður nú af saginu? hugsaði ég og staldraði við til að fylgjast með vinnu vélanna. Ég hafði ekki staðið lengi þegar ég tók eftir að ung stúlka með ákaflega mikinn andlitsfarða og í skóm með sérlega löngum hælum fylgdist með vinnuvélunum af sama áhuga og ég. Hún sat á hjólinu sínu og vék ekki af vettvangi.
Fyrst datt mér í hug að hún hlyti að vera kærasta annars dráttarvélarökumannsins en svo reyndi ég að skoða þetta frá annarri hlið. Ekki er ég kærasti dráttarvélaökumannanna, ég er áhugamaður um þetta sag og hví skyldi þessi unga stúlka með allan andlitsfarðann ekki líka vera jafnáhugasöm um þessa saghrúgu og ég?
Ég segi frá þessu hér þar sem ég las dagbók konu sem er afar upptekinn af að sjá atburði, fólk og skoðanir frá mörgum ólíkum sjónarhornum og nú reyni ég að taka hana mér til fyrirmyndar í þessu efni. Að sjá hlutina frá fleira en einu sjónarhorni.