Mér er lífsins ómögulegt að gera áætlanir um söguþráð þegar ég skrifa. Ég hef margreynt að skrifa niður í stílabók framvindu þeirrar sögu sem ég er að vinna að, bara í stórum dráttum. Ég hefst handa og legg einhverjar línur en svo er ég rétt byrjaður að skrifa þegar allt fer í aðra átt en ég hafði áætlað. Maður hefði haldið að sú framtíð sem ég hef ætlað persónum mínum í fyrsta kafla verði ófrávíkjanlega að veruleika í þeim þrettánda. En svo er ekki. Ég hafði til dæmis sagt persónu minni að ganga rakleiðis heim eftir óvænta uppákomu. En hún gerði það ekki heldur beygði af leið því henni langaði allt í einu í svo mikið í Pepsi.
Þessar beygjur persóna af leið, þessir óvæntu útúrdúrar, valda mér eilífum vandræðum því skyndilega er ég – eða persónan sem allt í einu vildi fá sér ískalda Pepsi að drekka – bara stödd í sjoppu og veit ekkert hvað hún á að gera við sig eftir að hafa drukkið gosdrykkinn og svalað þorsta sínum.
Um þetta hugsaði ég svo ákaft á morgungöngunni sem ég hóf óvenju árla. Morgunloftið var svalt, einhver nístingslegur raki í loftinu gerði það að verkum að ég þurfti að ganga greitt til að halda á mér hita. En ég var gersamlega í eigin þönkum og arkaði bara áfram án þess að velta fyrir mér hvert ég væri að fara (en einu sinni er stjórnin tekin af mér) og skyndilega vaknaði ég mitt inni í skógi. Ég leit á úrið mitt og sá að ég hafði gengið allt of lengi, miklu lengur en ég hafði áætlað. Ég er í tímaþröng og get ekki varið of löngum tíma í að þvælast um nærliggjandi skógarstíga, ég þarf að vinna.
Á internetinu sá ég að metsölulisti bókaútgefenda fyrir október er kominn og mér til nokkurra vonbrigða er Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf ekki á listanum. Ég fann bókina mína hvergi á listanum en ég fann til dæmis Randver kjaftar frá – geggjað ævintýr, Hundmann 2 – Taumlaus, Handbók fyrir ofurhetjur, fimmti hluti– Horfin … Ég vona að bráðum komi ritdómar, það er að segja góðir ritdómar sem selja bókina … Kannski koma dómar í Mogganum, Fréttablaðinu, Kiljunni, Lestrarklefanum, Víðsjá, Stundinni … maður veit aldrei, kannski líta þessir miðlar svo á bókina að hún skipti of litlu máli fyrir menningarlíf Íslendinga, fyrir barnabókmenntirnar í landinu að óþarfi sé að nota púður á hana. Maður veit aldrei hvað gerist. Það er til skilgreining á Guði: frelsið sem leyfir öðru frelsi að vera til