Espergærde. Ég er ekki gröfumaður.

Mér er yfirleitt sama þótt Google og vinir hans horfi yfir öxlina á mér, hlusti á samtöl mín og þefi af sokkunum mínum. Ef þeim finnst það áhugavert, ókei, be my guest. Ég verð auðvitað undrandi þegar mér fara að berast endalausar auglýsingar fyrir jarðýtur og gröfur af Caterpillar-gerð eftir að ég þurfti að vinna smá verkefni um bókaflokk sem ber nafnið Caterpillar. Ég ræddi því stundum um þessar bækur (í áheyrn tölvunnar minnar) og notaði Google til að hjálpa mér við rannsóknarvinnu. En Google misskilur mig og heldur að ég sé jaxl sem stýri stórum vinnuvélum af Caterpillar gerð og hafi jafnvel áhuga á að kaupa stórvirka vinnuvél.

En í dag (réttara sagt rétt á eftir) á ég stefnumót inn í Kaupmannahöfn við minn aldna tilvistarsálfræðing. Tveggja tíma session – það dugar ekki minna. Ég dreg þungt andann þegar ég hugsa til þess að þurfa að fara í gegnum hakkavél sálfræðingsins, maður verður gersamlega úrvinda á eftir.

Í gær (ég er að flýta mér, stefnumótið nálgast) hitti ég Jón Hall, þann góða mann yfir bjór á veitingastaðnum niður við höfn. Það er langt síðan við höfum hist þótt við búum báðir í Danmörku, séum báðir í útlegð. En hann er á gömlu fangaeyjunni, Borgundarhólmi, langt út í hafi og ekki auðvelt að skella sér í heimsókn. En svo það sé á hreinu. Jón Hallur virtist nokkuð glaður í gærkvöldi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.