Espergærde. Í austurátt

Ég sá hana úr fjarska þar sem hún sat hreyfingarlaus á ótraustum bekk sem einhver hafði komið fyrir í fjörukambinum fyrir langalöngu. Hún horfði út á hafið og verkaði á mig eins og klisjukennd mynd af forsmáðri eiginkonu í Hollywood-kvikmynd. Auðvitað þekkti ég hana strax og af einhverjum ástæðum, sem ég geri mér ekki grein fyrir, fannst mér eins og hún væri að bíða eftir mér, þótt hún sýndi engin merki um að hún vissi að ég væri á leiðinni í átt til hennar. Hún sat bara og starði fram fyrir sig út í buskann (í austurátt).

Mig vantaði ekki nema fáa metra að bekknum þegar hún leit um öxl. Yfir andlit hennar breiddist bjart bros eins og henni væri skelfilega létt við að sjá mig nálgast.
„Ég vissi að þú mundir koma, sestu hérna hjá mér, elskan mín,“ sagði hún og veiddi einn af hinum ljósu krullulokkum sem hafði fokið fyrir annað auga og festi á bak við eyrað. Hún klappaði með flötum lófanum á bekkinn við hliðina á sér, mjakaði sér aðeins til hliðar til að gefa mér pláss og sagði svo með hálfgerðu andvarpi.
„Sástu dóminn sem ég fékk í Politiken?“
„Já, ég sá hann,“ svaraði ég. „En það var í síðustu viku. Ertu enn að hugsa um hann?“

Ég var þreyttur og megnaði ekki að tala um þennan ritdóm (þótt ég skildi vel að skáldkonan hafði þörf fyrir það) og þráði frið meira en annað. Ég hafði verið allan daginn inni í Kaupmannahöfn og hafði ákveðið eftir að ég kom aftur til baka með járnbrautarlestinni að hrista af mér bæjarkliðinn sem ómaði í hausnum á mér með því að ganga niður að strönd til að fylgjast með skipaumferð eftir Eyrarsundi. Inni í Kaupmannahöfn hafði ég átt langt samtal við hinn aldna tilvistarsálfræðing sem vildi vita meira um þá tilfinningu sem ég hafði um að ég væri í útlegð frá Íslandi að ég væri landrækur. Ég gat ekki annað en reynt að gera lítið úr því og sagði honum að hann mætti ekki leggja of mikið í þessi kæruleysislegu ummæli.

Ég hef sökkt mér niður í John Fowles. Mikið er sá rithöfundur vitur og gáfaður.


dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.