Espergærde. Hugrekki

Ég er allur með hugann við John Fowles þessa dagana. Ég les Ástkonu franska lautinantsins. Örugglega í hundraðasta skiptið. Mér finnst Fowles bara ótrúlegur rithöfundur. „Writing is the most difficult thing in the world and takes great courage,“ segir hann í einhverju viðtali og um þetta hugsaði ég þegar ég gekk af stað út í morgunrökkrið. Er ég ekki nógu hugrakkur? spurði ég sjálfan mig. Þessu velti ég fyrir mér því ég finn hvað ég á erfitt með að setjast við skriftir. Sí og æ fresta ég því að takast á við verkefnið sem bíður mín þótt ég sé í tímaþröng.

Og enn og aftur gekk ég út í morgunkulið; ekkert morgunhlaup í þetta sinn bara göngutúr. Mér varð strax kalt á göngunni þótt ég hraðaði mér eftir göngustígunum. Ég hefði átt að klæða mig betur, hugsaði ég. En það var ekki kuldinn sem átti hug minn heldur hvernig ég tækist á við bókaskrif, um það hvernig ég kæmist áfram; mér finnst ég svolítið fastur. Slíkar hugsanir muldruðu í hausnum á mér líka eftir margra kílómetra göngu og líka þegar ég var kominn upp á brekkuna með útsýni yfir Eyrarsundið. Þar var vindurinn jafnvel enn kaldari og ég sá að stórt flutningaskip sigldi í suðurátt með háan stafla af gámum á dekkinu. Eyrarsundið var úfið og illúðlegt fannst mér og ég öfundaði ekki þá sem stóðu á dekki skipsins og pössuðu að gámarnir dyttu ekki útbyrðis.

Ég tók fram símann minn – síminn minn er búinn myndavél! – og beindi linsunni út á sundið, smellti af og vonaðist eftir að fanga skipið á ljósmyndinni. Það kom í ljós, það sem ég eiginlega vissi, að myndavélin var ekki nógu öflug til að sýna flutningaskip á siglingu suður Eyrarsund. Skipið í fjarskanum sést varla á myndinni. Sennilega ætti ég að fá mér nýrri síma, hugsa ég. Síma – sem líka hefur innbyggða myndavél – bara nýrri og með sterkari myndavél. En það geri ég ekki fyrr en ég er búinn að skrifa metsölubók og rétta af efnahag skrifverkstæðisins.

Þegar ég er í húsinu í Hvalfirði – og þar er ég sem betur fer stundum – sakna ég að ekki séu tíðari skipaferðir inn eða út fjörðinn. Hvalveiðiskipin sigla ekki lengur en af og til á danskt herskip erindi inn fjörðinn í leit sinni að skuggaskipinu sem sést þegar tunglið er hátt á lofti og regnskýin hanga lágt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.