Espergærde. Krossgötur

Þeir safnast upp hjá mér tómu kaffibollarnir, ég hef þó átt samtal við sjálfan mig um að drekka minna kaffi. Kaffibollunum tók ég eftir þegar ég settist niður við skrifborðið mitt og furðaði mig á að ég hefði ekki tekið þá með mér niður í gær þegar ég stóð upp frá vinnu og vaskað þá upp. Þetta var fyrsta hugsunin. Ég hafði verið úti að hlaupa (5,7 km, 5:03 pr. km), farið í sturtu og klæðst hlýrri peysu því mér verður kalt þegar ég sit lengi kyrr hérna uppi þar sem ekki er sérlega hlýtt. Það hefur hvílt á mér í nokkra daga að ég skulda nokkur tölvubréf sem ég ætlaði að vera fyrir löngu búinn að svara. Um þetta hugsaði ég þegar ég virði fyrir mér skrifborðið og hlustaði á tónlist Nick Drake sem ég er nýbúinn að kynnast.

Það komst eitthver taktleysa í vinnuna hjá mér eftir að tveir vikudagur fóru í ferðalög inn til Kaupmannahafnar; fyrst til míns aldna sálfræðings og svo til að borða hádegismat með forleggjaranum, eða fyrrverandi forleggjaranum, Johannes Riis. Ég hef gaman af því að hitta þennan lágmælta fyrirmyndarmann. Við höfðum ekki setið lengi þegar hann spurði mig hvernig mér fyndist að standa á krossgötum.
„Krossgötum?“ spurði ég til að heyra hvað hann átti við. Sennilega stendur maður alltaf á einhverjum krossgötum, misþýðingarmiklum, en ég vissi hreinlega ekki hvaða vegamóta forleggjarinn vísaði til.
Johannes hló. „Já, krossgötum, stendurðu ekki á krossgötum?“
Ég hló honum til samlætis þótt ég satt að segja vissi ekki hverju ég átti að svara. Stundum skammast ég mín fyrir hvað ég get verið vitlaus, ég þorði hreinlega ekki að koma upp um mig og þóttist því vita hvað hann átti við. „Ég er allt of gamall til að standa á krossgötu. Það er tæpast rétti tíminn til að byrja upp á nýtt með glænýjar vonir og drauma. Ég er kannski ekki svo gamall … en ég held að það væri klúður að flækja málin núna.“
„Þú neyðist nú til að velja, þú átt minnsta kosti fjóra valmöguleika,“ sagði hann og í raddblænum var einhver vissa, eins og öllum væri kunnugt um þessa fjóra valmöguleika sem mér stæðu til boða. En ég var sennilega einn af fáum sem hafði ekki hugmynd um þessar krossgötur sem hann vísaði til og því vali sem ég stóð frammi fyrir.

Þegar ég rifja upp þetta samtal finnst mér eins og einhver annar en ég hafi tekið þátt í því. Um þessar krossgötur sem Johannes minntist á veit ég enn ekkert, svarið sem ég gaf honum var hreinlega rangt. Ég veit ekki hvað fékk mig til að segja orðin sem komu út úr mér.

ps. Á meðan ég bíð eftir að einhverjum íslenskum bókmenntaáhugamanni þóknist að skrifa um Dularfullu styttuna og drenginn sem hvarf birtast dómarum aðrar íslenskar bækur; Þorgeir Tryggvason var ánægður með bók Steinars Braga. Einhvern veginn hef ég ekki áhuga á bókinni hans Steinars og ekki hef ég heldur áhuga á að lesa bók þeirra góðu kvenna Auðar Jónsdóttur og Birnu Önnu. Mig langar hins vegar til að lesa Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur.

Víðsjárdómarinn, Björn Þór, varð víst ekki sérlega glaður þegar hann las bók þeirra vinkvenna, Auðar og Birnu Önnu 107 Reykjavík, og mun harðorður dómur hans hafa valdið nokkru uppnámi í fylgishópi höfundanna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Björn Þór lendir í hvassviðri vegna ritdóma sinna. Eitt sinn kallaði Vigdís Grímsdóttir hann pungrottu og vesaling vegna ritdóms um eina af bókum Guðrúnar Evu. Það var ekki fallega gert af Vigdísi og óþarfi, finnst mér, að nota slík orð yfir fólk sem er á öndverðum meiði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.