Espergærde. Hin svakalegu bókajól

Það er afmælisdagur í dag. Ég hef alltaf verið ánægður með að eiga afmæli, finnst það hátíðlegt; gaman að fá kveðjur frá fólki sem enn man eftir mér og skemmtilegt að heimilisfólk gerir smávegis extra úr deginum.

Ég var að vakinn eldsnemma í morgun, löngu fyrir dagrenningu. Allt var niðadimmt enda klukkan rétt skriðin yfir fimm þegar síminn minn byrjaði að titra og pípa. Ég er annars með slökkt á öllum svona hljóðum en ágætur enskur kunningi minn úr forleggjarastétt hafði verið að dunda sér eitthvað í nótt (hann er með lítið barn á heimilinu) og útbúið lagalista fyrir mig til að spila, í dag og sennilega alla daga, og hann notar eitthvað app sem ég hef gleymt að slökkva á hljóðmerkjum.

Ég hef svolítið veri að bíða eftir ritdómum um bókina mína, en ekkert hefur gerst. Einhver félagi minn orðaði það svo að Hjartastaður Steinunnar Sigurðardóttur sem kom út fyrir 25 árum og var endurútgefin í kilju í sumar fái meiri athygli en bókin mín. Það þótti mér fyndið. En svo gerðist það í dag að hin stórfína bókmenntasíða Lestrarklefinn.is birti stórfínan dóm um bókina. Það er aðdáunarvert að þessar ungu konur, sem sjá um bókmenntasíðuna, hafi kraft og úthald til að halda síðunni gangandi, dag eftir dag, ár eftir ár. Maður getur ekki annað en tekið ofan fyrir þeim

Annars hef ég setið hér í dag og tekið á móti heillaóskum, svarað símanum mínum og lesið. Nú er á dagskrá hjá mér bók Sigríðar Hagalín, Eldarnir, sem hefur aldeilis meðbyr núna. Sigríður Hagalín er ansi flinkur höfundur og mér finnst það sem ég hef lesið í bókinni (fyrstu 60 síðurnar) áreynslulaust (ég get ekki annað en dáðst að áreynsluleysinu og reynt að læra) og ansi stílöruggt. Ég er spenntur að lesa áfram enda vex spennan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.