Espergærde. Örlög monthana

Allir menn eru sem gras og öll vegsemd þeirra er sem blóm á grasi, grasið skrælnar og blómið fellur. Þetta var amma mín alltaf vön að segja ef maður montaði sig. Þegar ég var lítill strákur fannst mér eiginlega ekkert skemmtilegra en að monta mig. Ég kvaldi alla með löngum sögum um fótboltaafrek mín á leikvellinum; lýsingar á feikilega fallegum mörkum eða gífurlega vel hugsuðum löngum sendingum. Amma mín bjó fyrir norðan, eins og sagt var á mínu heimili, þ.e. norður á Akureyri, og hana hitti ég venjulega einu sinni á ári. Í þessum heimsóknum hafði ég lítið annað við tímann að gera en að monta mig. Amma mín nennti ekki að hlusta á þetta fótboltaþus mitt og mont og minnti mig bara á að mín biði sömu örlög og hinna fallegu sumarblóma; þau falla á haustin.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.