Espergærde. Fjarvera fólks.

Ég tók tvær ljósmyndir á göngu minni í morgun og báðar myndirnar sýna hvor á sinn hátt fjarveru fólks (myndirnar læt ég fylgja (eina fyrir ofan og eina fyrir neðan textann)). Til að setja hlutina í samhengi tek ég fram að ég byrja nánast hvern morgun á því hlaupa (langhlaup) eða ganga langan göngutúr sem tekur rúman klukkutíma – þetta er brjálæði, hugsa ég stundum, þegar ég er ekki byrjaður að vinna fyrr en rúmlega níu, vegna þessarar morgunhreyfingar. Venjulega tek ég að minnsta kosti eina ljósmynd á ferðum mínum. Ég held að ég taki nánast aldrei myndir af fólki, frekar myndir af fjarveru fólks. Ég hef aldrei leitað að skýringu á því fyrr en nú þegar ég skrifa þennan texta. Einu sinni tók ég mynd af nokkrum karlmönnum sem sátu á einhvers konar markaði í Marokkó. Einn af mönnunum reiddist svo að ég skyldi taka mynd (ég reyndi þó að gera það laumulega) að hann spratt á fætur og tók langan hníf upp úr löngu slíðri sem hann hafði fest í leðurbelti um mjöðmina. Mér dauðbrá og flýtti mér að hverfa inn í mannfjöldann og varð ekki meint af. Kannski varð þetta atvik til þess að ég hætti að taka myndir af fólki. Eða kannski tek ég ekki myndir af fólki vegna þess að það er ekkert fólk í kringum mig.

Í dag voru viðfangsefni ljósmyndanna annars vegar yfirgefið reiðhjól og hins vegar tveir stólar fyrir vinapar eða kærustupar til að sitja á og horfa út á hafið. Á síðari myndinni situr enginn á stólunum og í veruleikanum hef ég aldrei séð nokkurn mann (þaðan af síður par) sitja á þessum tveimur stólum sem brátt fara á kaf í gras.

Gönguferðir mínar eru þó ekki alveg markaðar af einsemd. Í morgun mætti ég til dæmis gömlum manni sem hvað eftir annað hefur boðið mér að læra að leika á gítar hjá sér. Hann segist kenna undirstöðugripin í falminco-tónlist og sá grunnur nægi til þess að spila alla tónlist – „heilla alla sem á þig hlusta,“ eins og hann er vanur að segja. Ég hef enn ekki þegið boð hans. Sjálfur segir hann að hann hafi bara haft einn nemanda og sá sé dáinn. Mér finnst þetta ekki góð auglýsing fyrir gítarnámskeiðið hans og ég hef sagt honum það. Í morgun bauð hann ekki að gítarkennslu heldur vildi hann segja mér frá hugmynd sem hann hefði fengið. Honum datt nefnilega í hug að það væri gaman að geta sett minningar á flösku og lokað minningarnar inni með korktappa. Þannig gæti maður safnað minningum og geymt þær í hillu í flösku merktum minningunum. Ef manni langaði að rifja upp minnisstætt atvik gæti maður bara opnað flöskuna með minningunni og þá kæmi hún aftur til manns. Aftur heyrði maður sömu hljóð, fyndi sömu lykt og sama góða tilfinning sem minningunni tilheyrði streymdi á ný um kroppinn.

Mér þótti hugmyndin góð og ég sagði honum það.

Ljósmynd af tveimur stólum og samkvæmisborði fyrir fjóra.

ps. Ég sá að Gerður Kristný Guðjónsdóttir hefði hlotið verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þetta eru virðuleg verðlaun og hún er vafalaust vel að þeim komin. Ég velti bara fyrir mér hvað veldur að nákvæmlega hún teljist verðugust til verðlaunanna af öllum þeim sem bera hag íslenskrar tungu fyrir brjósti. Ég er ekki með annan kandídat í huga ég er bara að hugsa um valferlið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.