Espergærde. Að bjarga sér í óbyggðum?

Ég þaut eftir Strandvejen og hafði hlaupið tæplega fjóra kílómetra þegar ég rak augun í skilti sem ég hef aldrei fyrr tekið eftir þótt ég hafi margoft farið framhjá húsinu með skiltinu. Þetta var stórt og glæsilegt skilti; gullplata þar sem áletrunin var grafin með skrautlegum svörtum stöfum: ÞJÁLFUNARMIÐSTÖÐ Í LÍFSFÆRNI.

Ef ég hefði ekki verið að flýta mér og ekki verið að elta nýtt hraðamet hefði ég staldrað við til að kanna þetta betur. Augljóslega er hægt að þjálfa sig í að vera góður að lifa. Hvað ætli sé á námsskránni hjá Lífsfærnismiðstöðinni; hvað felst í því að vera fær í að lifa? Næst þegar á leið hjá ætla ég að skoða fólkið sem gengur út og inn um dyr miðstöðvarinnar og reyna að átta mig á hvort þetta séu framúrskarandi einstaklingar á einhverju ákveðnu sviði: hvort þau séu góð að hlaupa, bera þunga hluti, bjarga sér í óbyggðum, þekkja stjörnurnar, eignast peninga á einfaldan hátt, sætta sig við lítið …? Í hverju ætli færnin liggi?

Á meðan ég velti þessu fyrir mér og horfði út um gluggann minn sá ég tvennt sem vakti furðu mína. Úti á Eyrarsundi voru svo mikil læti í hafinu að það er engu líkara að það sé straumþungt stórfljót sem rennur í norður. Á sama tíma var stórt appelsínugult flutningaskip á hraðferð í norðurátt, eins og það væri borið áfram af þessum mikla straumi. Ég hafði varla séð skipið birtast þegar það var horfið aftur, svo hröð var sigling skipsins.

Annars varð ég þreyttur á því að lesa að enn væri að skera niður hjá RÚV. Er til þarfari stofnun en RÚV? Væri ekki viturlegra að styrkja RÚV og þannig fá mótvægi við allt ruglið, falsfréttirnar og þennan sjarmalausa fréttaflutning af dansi þeirra sem hafa verið gerðir frægir. Þegar ég verð forseti lýðveldisins ætla ég að: 1) Styrkja RÚV. 2) Hækka laun leikskólastarfsmanna svo þeir verði hálaunafólk. 3) Hækka laun kennara svo þeir verði hálaunafólk.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.