Espergærde. Konan í sorgarklæðunum.

Ég reyndi að fanga mávana hérna á ströndinni á ljósmynd. Myndavélin á símanum mínum er bara svo slöpp að mávarnir – sem eru svo flottir á brúarstólpum eða á steinunum – sjást aldrei á myndunum sem ég tek. Hægt er að sjá stóru myndina; landslagið, birtuna, hafið, en aldrei sjálfa mávana. Jafnvel sést glitta í Svíþjóð sem jafnan er í bakgrunn myndanna þar sem ég tek myndir aldrei í aðra átt en austur. Það er regla sem lærði þegar ég var ungur í ljósmyndanámi. „Alltaf í austur, Snæi,“ endurtók kennarinn í sífellu. „Pússa linsuna og beina henni í austur,“ var boðskapur kennara míns og þetta lærði ég.

Mér finnst eins og ég hafi einu sinni heyrt konu tala um leikritið Mávinn. Þetta dettur mér allt í einu í hug. Ég held að þetta hafi verið kona, nema ég hafi sjálfur brugðið mér í hlutverk konu eins og ég geri af og til, mörgum til ama. Ég hreinlega man ekki hvaðan þetta kemur, kannski var það Ásta S. sem sagði þetta eða Júlía M. eða Milla X … ég man það ekki: „Ég er að lesa Mávinn eftir Anton Tsjekhov. Leikrit sem ég hef í mörg ár lesið aftur og aftur. Leikrit sem ég hef séð margoft í ólíkum uppsetningum. Mávurinn er leikrit um þrá. Þrá eftir ást. Leikrit um þránna að skrifa eitthvað sem er svo stórfenglegt að það gerir gæfumun. Mávurinn er um þrá eftir eigin lífi. Lífið sem maður fangar í hálft sekúndubrot eitt sumarkvöld þegar sólin er að setjast. Ég verð veik af þrá eftir mínu eigin lífi þegar ég les leikritið. Ég á bara ekki orð til að lýsa hvað mér þykir mikið til þessa verks koma, hvað það hefur mikla þýðingu fyrir mig.“

Á ferðum mínum um götur bæjarins mæti ég mjög oft svartklæddri, ungri konu. Hún er svartklædd frá toppi til táar, ég held meira að segja að svarta hárið sem hún hefur á höfðinu sé litað með svörtum hárlit. Hún minnir mig á leikritið Mávinn og mig hefur oft langað að víkja mér að henni og spyrja:
ÉG: „Hví berið þér ávalt sorgarklæði?“
HÚN: Ég klæðist svörtu til að tjá líf mitt. Ég er óhamingjusöm.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.