Espergærde. Orðið á götunni

Ég hef oft velt fyrir mér því gangvirki sem knýr íslenskan bókamarkað og þá sérstaklega það sem snýr að því hvaða bók telst aðalbók jólamarkaðarins. Hið svokallað hype-ársins. Íslenskt samfélag er lítið, og íslenskt bókmenntasamfélag enn minna. Til að gera aðstæðurnar enn hagstæðari fyrir svokallað hype er tíminn sem líður frá því að bók kemur út og þar til hinu eiginlega sölutímabili líkur – um það bil byrjun nóvember til tuttugasta og fjórða desember – að fáir ná að lesa eina bók á þessum stutta tíma hvað þá fleiri en eina.

Ég hef oft getað rakið hvernig ein bók nær óvænt að rjúfa sölumúrinn fyrir jól. Oft byrjar það á því að einhver, sem talinn er hafa mikið vit á bókmenntum rekst á einhvern gúbba á Laugaveginum og hrósar ákveðinni bók í hástert. Að loknu samtalinu heldur gúbbinn áfram ferð sinni eftir Laugaveginum og hittir annan enn meiri gúbba og segir frá samtalinu um þessa stórkostlegu bók og ekki líður á löngu þar til bókin á allra vörum en fáir hafa svo mikið sem lesið tvö orð í bókinni.

Í gær fékk ég ansi óvæntar kveðjur frá ungum, áhrifamiklum, íslenskum listamanni. Við höfum þekkst lengi en aldrei höfum við verið í sérlega miklu persónulegu sambandi. Við náðum að spjalla aðeins saman í gær í gegnum spjallforrit á tölvu og bar margt á góma. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að ákveðin bók eftir ákveðinn rithöfund sætti sennilega mestum tíðindum í hinu íslenska jólabókaflóði í ár. Ég varð bæði hissa en um leið mjög forvitinn og keypti bókina samstundis sem rafbók og hellti mér út í lesturinn í gærdag. Í gærkvöldi var ég búinn með bókina og starði tómur út í loftið. Getur það verið að svo illa sé komið fyrir íslenskum bókmenntum að þessi bók teljist aðalbók vertíðarinnar, spurði ég sjálfan mig. Mér fannst bókin allt í lagi en ekkert meira en það.

Ég hafði aftur samband við listamanninn í gærkvöldi og spurði hvað hann hafi eiginlega séð í þessari bók. Ég fékk svar að vörmu spori. Hann hafði alls ekki lesið bókina – ekki eitt orð – en hafði heyrt að vinur hans hefði verið nokkuð hrifinn og talað vel um bókina (hvort sá hafði lesið bókina veit ég ekki). Það er einmitt þetta sem gerist oft á íslenska bókamarkaðinum, fáir lesa fyrir jól en samt er alltaf ein eða tvær bækur sem ná undarlegum söluhæðum vegna orðsins á götunni.

Þegar ég kláraði umrædda bók (ég nenni ekki að segja hvaða bók þetta er því ekki vil ég að eyðileggja fyrir umræddum höfundi) varð mér hugsað til bókar Rögnu Sigurðardóttur sem ég las í fyrra, Vetrargulrætur. Það er bók sem situr í mér og var að mínu mati þúsund sinnum betri en þetta skáldverk sem ég las í gær og ekki var hún sérlega hypuð. Ég skora á áhugafólk um íslenskar bókmenntir að lesa bók Rögnu Sigurðardóttur, þar finnst mér satt að segja íslenskar bókmenntir rísa upp úr meðalmennskunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.