Espergærde. Eftirvænting.

Haustdagarnir líða og sennilega get ég kallað hinn hressilega vind og hið svala loft sem mætti mér í morgun vetrarveður. Ég hljóp niður á Strandvejen í morgun á stuttbuxunum mínum og fann hvað vindurinn var kaldur. Eiginlega markaði hlaupatúrinn í morgun smá þáttaskil, eða sætti tíðindum fyrir þann sem hljóp, því þetta var í fyrsta sinn sem ég hleyp af stað án þess að borða morgunmat. Mér var illt í maganum þegar ég vaknaði svo ég hugsaði að sennilega væri skárra að hlaupa með tóman maga. Og það var fyrirtak að hlaupa svangur.

Hingað berast bréf og kveðjur og maður finnur að jólabókavertíðin er komin í fullan gang. Það eru fréttir af nýútgefnum bókum, sögum um tilraunir höfunda til að vekja áhuga á verkum sínum og vangaveltur um ritdóma sem birtast í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Það er liðinn nokkur langur tími síðan bókin mín kom út og ég finn að ég er farinn að bíða eftir ritdómum úr þessum stóru fjölmiðlum. Kannski koma engir dómar en ég finn fyrir eftirvæntingu. Að skrifa bók og fá hana prentaða er samtal við heiminn – þannig skynja ég að minnsta kosti mín skrif – og maður vonar að það hafi þó þá þýðingu að einhver vilji svara og kommentara. Maður vonar að skrifin falli ekki bara steindauð niður, eins og fugl sem er skotinn á flugi. En þessa bið þurfa víst allir þeir sem gefa út bækur að þola.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.