Ég hljóp mitt fyrsta keppnishlaup, Vatnsmýrarhlaupið, þegar ég var 8 ára. Ég veit ekki hversu langt hlaupið var. Þetta var langhlaup. Við Tommi vorum valdir til að taka þátt í keppninni sem fulltrúar Álftamýrarskóla. Ég vann ekki stórt, eins og ég tel mér trú um að ég hafi oftast gert þegar ég var að keppa, heldur var ég þriðji síðastur. Ég skammaðist mín ægilega. Hafliði bróðir minn spurði þegar ég kom heim hvernig hlaupið hefði gengið og ég svaraði að ég hefði orðið þriðji. Ég held að hann hafi vitað að ég var þriðji síðastur í röðinni, þótt hann segði ekkert, því það fór örugglega ekki framhjá honum hversu miður mín ég var. Ég var vanur að vinna öll hlaup.
En ég var líka vanur hlaupa og átti að baki hundruð hlaupakílómetra, gegnum gras og engi, malbik, möl og móa og einu sinni hljóp ég stanslaust í sex klukkutíma einmitt sama dag og þetta mitt fyrsta keppnishlaup, Vatnsmýrarhlaupið, fór fram. Þann dag voru hlaupararnir ræstir klukkan 15:00 en Tommi hafði krafist þess að við myndum æfa okkur vel fyrir hlaupið og þegar klukkan var átta að morgni keppnisdagsins vorum við komnir út að æfa og við hlupum linnulaust þangað til klukkan var tvö. Þá vorum við úrvinda og vorum keyrðir í bíl að rásmarkinu til að taka þátt í Vatnsmýrarhlaupinu. Árangurinn var eftir því.
Fuglarnir fljúga, fiskarnir synda, en mennirnir hlaupa. Ég fór allar mínar ferðir hlaupandi; út í búð fyrir mömmu, í skólann, þegar ég bar út dagblöðin, þegar ég fór niður á Suðurlandsbraut til að hlusta á hljómplötur í Hljómplötudeild Fálkans, þegar ég keypti mér pulsu í Hjartarbúð, þegar ég fór upp á fótboltavöll … Ég hljóp.
Ég segi frá þessu hér því ég hef náð að hlaupa 750 kílómetra í ár samkvæmt Garmin-úrinu mínu. 2021 næ ég 1000 kílómetrum. Þá þarf ég að hlaupa 84 kílómetra á mánuði.