Ég ákvað að ganga af stað til hestanna í morgun. Það rigndi svo mikið að ég fór að hafa áhyggjur af aumingja ferfætlingunum úti í móanum. Þegar ég leit út um gluggann í eldhúsinu var niðamyrkur allt um kring, þungt regn féll af himnum og þrúgandi, svört ský lögðust af öllum sínum þunga á trjátoppana meðfram götunni.
Gangan til hestanna við Rolighedsallée er ekki sérlega löng, kannski þrír kílómetrar, en ég náði að verða gegnblautur, blautur inn að beini. Ungi drengurinn sem kom út úr einu af húsunum við Rolighedsallé, sennilega of seinn í skólann því það var asi á honum, bauð rámur góðan daginn og horfði svo forvitinn á mig, „hefur rignt svona rosalega,“ spurði hann mig opineygður.
Hestarnir voru fjórir úti í haga. Tveir þeirra komu strax til mín, lölluðu í rólegheitunum og vonuðu að ég hefði brauð meðferðis en það hafði ég því miður ekki. En hestarnir voru blautir og moldugir og þeir virtust jafnþjakaðir af þunga himinsins og ég. Þeir horfðu vondaufir á mig þar sem ég stóð handan girðingarinnar og regndropar féllu úr faxi þeirra.
Ég hef lesið nokkuð að undanförnu og er alltaf með svo margar bækur í gangi að stundum horfir það til vandræða: Colin Tóbin, Jo Nesbø, Tsjekhov, Gyrði Elíasson, Alice Munroe, Ófeig Sigurðsson, Sigríði Hagalín, John Fowles, Daphne de Maurier, Jón Karl Helgason, Steinar Braga, Hildi Knútsdóttur, Kate Atkinson, Marilynne Robinson … allt þetta lesefni fer í gegnum hausinn á mér og á göngu minni í morgun þegar ég var að hlusta á Daphne varð ég svo vondaufur og svartsýnn á að ég gæti nokkurn tímann orðið jafngóður og neinn þessara höfunda sem ég er að lesa. En ég æfi mig, hugsaði ég svo … Hugsýki íþyngir hjartanu en eitt vingjarnlegt orð gleður, þetta hef ég oft heyrt sagt.
ps. Í gær dó Valur pabbi hans Palla, maðurinn sem kenndi mér að ganga ekki með krummafót í gegnum lífið. Fráfall hans þykja mér miklar sorgarfréttir og nú sækja á mig minningar um Val og Ernu og allt það góða sem þau gerðu fyrir mig og alla velvildina sem þau sýndu mér alla tíð.