Espergærde. Stefnumót í Kaupmannahöfn

Ég átti erindi til höfuðstaðarins í gær. Kaupmannahöfn er, eins og sennilega aðrar borgir í Evrópu, jólapuntuð í lok nóvember. Jólaljós lýstu upp götur í nóvembermyrkrinu og skreyttu byggingar og verslunarglugga. Kaupmannahöfn er fín höfuðborg og kannski flyst ég þangað inn þegar ég verð stór. Erindi mitt til borgarinnar var tvíþætt annars vegar stefnumót klukkan 11:00 og hins vegar hádegisverður með handritshöfundi klukkan 13:00. Ég segi það strax – þótt ég telji mig nánast alltaf vera á sigurbraut – að mér fórst afleitlega úr hendi að selja honum bókina mína. En það kom ekki í veg fyrir að fundurinn var sérstaklega ánægjulegur.

Orangeriet i Kongens have er viðkunnanlegur staður til að halda hádegisfundi. Þótt sjálfur hádegisverðurinn hafi ekki verið sérlega æsandi fannst mér veitingasalurinn bjartur og notalegur. Samtal okkar handritshöfundarins var skemmtilegt og klukkan var orðin meira en þrjú þegar við stóðum á fætur til að borga reikninginn fyrir veitingarnar.

Í gær hljóp ég, þannig að í dag var göngudagur. Ég kláraði að hlusta á hljóðbók eftir Daphne de Maurier (ansi góð) og nennti ekki að finna aðra hljóðbók á göngunni og hlustaði því bara á tónlist, Nick Drake, sem ég er nýbúinn að kynnast. Það er ansi melankólískur söngur og kannski hafði það áhrif á skap mitt því ég ákvað að fá mér sæti á hrörlegum bekk með útsýni yfir Eyrarsundið, fann hvernig þögnin óx inni í mér og fylgdist með álaveiðimönnunum vinna með veiðifæri sín og græjur rétt fyrir utan ströndina. Ég sat lengi eða þar til ég fann að mér var orðið ískalt langt inn í kjarna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.